föstudagur, janúar 11, 2008

11. janúar 2008 - Púkinn og ég.


Þegar ég er að tala um Púkann í þessum stutta pistli mínum á ég ekki við púkann á fjósbitanum, heldur hinn eina sanna Púka sem heldur úti bloggsíðu og rekur mikilvægt fyrirtæki í Reykjavík.

Þótt ég og Púkinn séum langt í frá sammála í öllum málum, höfum við löngum átt ágætis samstarf og viðskipti. Púkinn gætir þess nefnilega að tölvan mín lendi ekki í ógöngum þegar óprúttnir aðilar reyna að smita hana af einhverjum óþverra eins og vírusum og ormum af ýmsu tagi. Það sem er þó mikilvægast er þó sameiginlegt áhugamál okkar sem kennt er við ættfræði. Þar stendur Púkinn sig öllu betur en ég, enda var hann með fjölda fólks í vinnu við skráningar á tímabili þegar ég var ein að slá inn upplýsingar af Þjóðskjalasafni inn á forritið sem Púkinn seldi mér fyrir áratug síðan fyrir örfáar krónur.

Í dag getum ég og Púkinn fallist í faðma yfir sameiginlegu áliti á vandamálum samfélagsins, en það hljóðar svo:

Kaupa, kaupa, kaupa.

Þótt ég sé enn í andlegum sárum eftir brostnar vonir mínar um stórfelldan gróða af hlutabréfum í REI, þá er ég hjartanlega sammála Púkanum um að nú sé rétti tíminn kominn fyrir litlu sparifjáreigendurna að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum. Það má vera að botninum sé ekki alveg náð, en það er ekki langt niður á botninn og síðan taka bréfin að hækka á ný og þá munu þau hækka verulega. Vandamál mitt er bara að ég á enga peninga fyrr en í vor, en þá kaupi ég líka fyrir allan peninginn.

-----oOo-----

Ég fékk boðskort á árshátíð Eimskipafélagsins í gær og gladdist mjög í hjarta mínu þótt ég hafi ekki verið í föstu starfi hjá félaginu í nærri tvo áratugi. Og þó, eitt og eitt viðvik á undanförnum árum. Það væri vissulega gaman að mæta og hitta gamla samstarfsfólkið sem ég hefi ekki hitt, sumt í jafnlangan tíma. Mig grunar samt að boðskortið hafi verið sent mér fyrir mistök, enda færi ég varla á árshátíð í Valsheimilinu nema vera sveipuð fána Aftureldingar, ef ekki, fána Vesturbæjarstórveldisins.


0 ummæli:







Skrifa ummæli