fimmtudagur, febrúar 01, 2007

1. febrúar 2007 - Svik samgönguráðherrans við svik samgönguráðherrans


Þar sem ég var á leiðinni heim af fundi á fréttatíma sjónvarps á miðvikudagskvöldið, var sagt frá nýrri samgönguáætlun sem og þeirri áætlun samgönguráðherra að leggja 2+1 veg um Suðurland til Selfoss. Ég fylltist hatri í garð helvítis Ólsarans í Samgönguráðuneytinu, bölvaði honum í sand og ösku (en gladdist um leið yfir möguleikanum á að geta sent honum kaldar kveðjur á bloggi kvöldsins) og ákvað um leið, að skrifa hatramman pistil á Moggabloggið honum til hneisu og svik hans við 2+2 veginn sem hann lofaði eftir slysið hörmulega í byrjun desember.

Þegar hægði um hjá mér og kisurnar komnar í rúmið, settist ég niður við tölvuna og hóf skrifin. Þar sem Sjóvá hefði þegar boðist til að kosta vegalagninguna, gæti Sturla með góðri samvisku, einbeitt sér að Norðfjarðargöngum, Lónsheiðargöngum, Óshlíðargöngum og göngum á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, byggt nokkrar brýr, lokið malbikun hringvegarins og byrjað á Sundabraut. Svei mér þá ef ég var ekki búin að lengja flugbrautina á Akureyri um þessa 500 metra í huganum svo RyanAir gæti byrjað samkeppni við innheimsk flugfélög á ódýrum flugvelli.

Þegar ég var komin svo langt í samningu pistilsins, sá ég ástæðu til að skoða betur fréttir kvöldsins á netinu og sá þá að Sturla Böðvarsson hefði sjálfur mótmælt fyrri frétt um 2+1 veg. Auðvitað, góður Snæfellingur sem að auki er búsettur í Stykkishólmi, lætur ekki hanka sig á slíku smáatriði og stendur við loforð sín um tvöfaldan Suðurlandsveg í báðar áttir á næstu fjórum árum :)

-----oOo-----

Ungur karlmaður sem ekki gaf stefnuljós til vinstri, missti næstum af möguleikanum á að beygja til vinstri á háannatíma á gatnamótunum á Bæjarbraut og Hraunbæ í gær. Vegna kæruleysis hans mættumst við með vinstri hliðarnar andspænis hvorri annarri bifreiðinni í stað hægri hliðanna. Notum því stefnuljósin rétt og liðkum fyrir umferðinni á einfaldan hátt!


0 ummæli:







Skrifa ummæli