laugardagur, febrúar 24, 2007

24. febrúar 2007 – Læknuð af stjórnarsetusýki?

Ég sat aðalfund í starfsmannafélaginu í vinnunni í gær. Fundurinn var óskaplega ljúfur, rétt eins og aðalfundur Ættfræðifélagsins kvöldið áður og tók hann fljótt af.

Ég bauð mig ekki fram til stjórnar og vantaði þó eitt andlit í varastjórn. Það hefði einhverntímann þótt saga til næsta bæjar að ég hefði ekki boðið mig fram til öruggrar stjórnarsetu og án atkvæðagreiðslu. Kannski er ég orðin svona brennd af þessu ágæta félagi.

Ég bauð mig einu sinni fram til stjórnarsetu í starfsmannafélaginu seint á síðustu öld og taldi mig eiga stuðninginn vísan. Þegar atkvæðagreiðslunni lauk og atkvæðin talin, var hafist handa um að lesa upp nýja stjórnarmenn í rétti röð eftir atkvæðamagni og aldrei var ég nefnd á nafn. Að lokum voru stjórn og varastjórn fullskipuð, en ég og einn frambjóðandi til viðbótar vorum enn ekki komin á blað og þá var hætt að lesa. Þykist ég vita að ég hafi fengið mitt eigið atkvæði. Síðan hefi ég verið í örgustu fýlu út í starfsmannafélagið.

Ekki var það til að hvetja mig, að ég sat í nokkur ár í öryggisnefnd fyrirtækisins og kosin inn af starfsfólki og þá helst gömlum starfsmönnum Hitaveitunnar. Í fyrra ætlaði ég að rúlla upp öryggisnefndinni með rússneskri kosningu en datt út. Ekki var það til að bæta andlegu heilsuna hjá mér.

Nú sit ég hér heima og þjáist ekki af fráhvarfseinkennum. Ætli ég sé læknuð af stjórnarsetusýkinni?

-----oOo-----

Ég var ekki búin að svara nokkrum athugasemdum sem bárust mér vegna ummæla minna um Guðna Ágústsson. Þar er því fyrst til að svara að ef verðið á landbúnaðarvörum er svo himinhátt að fólk hefur ekki efni á að kaupa það, þá á að flytja inn kjöt. Ég get ekki svarað með samanburði á Svíþjóð og Íslandi lengur, en minnist þess að pulsupakkinn var fjórfalt dýrari á Íslandi en í Svíþjóð árið 1995 eftir inngöngu Svíþjóðar í Evrópusambandið á sama tíma og laun mín þar voru 50% hærri en laun mín við sömu störf voru á Íslandi eftir að ég byrjaði hjá Hitaveitunni 1996.

Ég kaupi sárasjaldan íslenskt lambakjöt. Það er of dýrt. Ég kemst af án þess og hefi aldrei fundið þetta dásamlega bragð sem rollan fær í sig með því að sleikja saltið á þjóðvegunum. Þess vegna vísa ég umræðum um gæði þangað sem þau eru upprunnin. Þá þarf ég ekki ferskar kjúklingabringur. Ef ég kaupi kjúklingabringur í Bónus á afsláttarverði, verða þær geymdar í frystinum þar til þær verða eldaðar. Hvort kjúklingarnir gali á íslensku eða einhverri annarri tungu er mér alveg sama um. Sömu sögu er að segja um beljurnar. Ég kann ekki spönsku og og spyr þær ekki um upprunann þegar ég smelli þeim á pönnuna. Ég vil bara fá kjöt á viðráðanlegu verði hvaðan sem það kemur. Því get ég ekki annað en móðgast þegar Guðni Ágústsson svarar eins og fífl þegar hann er spurður, því með svörum sínum er hann að lítilsvirða mig og móðga. Megi hann finna sér annað starf eftir kosningarnar í vor.


0 ummæli:Skrifa ummæli