fimmtudagur, febrúar 08, 2007

8. febrúar 2007 - Breiðuvíkurmálið niðurlag

Rúmlega hundrað drengir voru geymdir í Breiðuvík á sjötta, sjöunda og fram á áttunda áratug síðustu aldar undir formerkjunum “Með illu skal illt út reka” og “Á misjöfnu þrífast börnin best”. Við vitum nú hvernig það mál fór og flest lentu börnin á Litla-Hrauni svo vart geta áðurgreind uppeldiskraftaverk verið rétta uppeldisaðferðin. En það er til önnur hlið málsins og öllu betri og aðstandendum til mikils hróss.

Margir þessara drengja komu til Breiðuvíkur frá barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellsdal, heilsárs dvalarheimili fyrir börn af báðum kynjum, fyrst og fremst ætlað fyrir börn á aldrinum 7 til 16 ára. Þrátt fyrir þessi takmörk voru börn á heimilinu, bæði undir sjö ára aldri og yfir sextán ára aldri. Þetta heimili var upphaflega rekið austur á Kumbaravogi hjá Stokkseyri, síðar að Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal en í Reykjahlíð frá því um 1957 til um 1970 er það flutti til Reykjavíkur og síðar lagt niður með nýjum stefnum í barnaverndarmálum.

Það er vert að geta þess að í Reykjahlíð var allur aðbúnaður gjörólíkur því sem lýst er í frásögnum frá Breiðuvík. Þarna voru allt að tuttugu börnum í einu, sum sem höfðu dvalist þar mestallt sitt líf, munaðarlaus börn, börn einstæðra mæðra, börn af óregluheimilum og börn þar sem foreldrar gátu ekki séð um börnin tímabundið af einhverjum ástæðum. Dæmi voru um börn sem hvergi áttu heima annarsstaðar, voru tekin af brotnum heimilum allt niður í tveggja ára aldur, ólust upp í Reykjahlíð og fóru ekki eða vildu ekki fara þaðan fyrr en á fullorðinsaldri.

Í Reykjahlíð var góður agi og þrátt fyrir að heimilið væri rekið sem stofnun, var heimilisbragurinn líkur því sem gerist á venjulegum heimilum, þó að því undanskildu að engir voru foreldrarnir. Börnin höfðu nóg í sig og á og vel hugsað um þau. Mosfellsdalurinn var leiksvæði þeirra og skóli að Brúarlandi og ég held að börnum hafi almennt liðið vel þarna. Helstu ágallarnir voru helstir þeir að ekki var boðið upp á sálfræðiþjónustu fyrir ofvirk börn með sérþarfir, börn á borð við Lárus Björn Svavarsson (Lalla Johns). Þá áttu eigendur hemilisins, Reykjavíkurborg og barnaverndarnefnd í stöðugum útistöðum við yfirvöld í Mosfellshreppi vegna skólakostnaðar fyrir þessi börn. Flest eða öll voru börnin skráð með lögheimili í Reykjavík og voru því hreinn aukakostnaður fyrir fátækan sveitaskóla sem Brúarlandsskóli og síðar Varmárskóli voru á þessum tíma, auk þess sem engir möguleikar voru á sálfræðiþjónustu í skólanum. Því vildu skólayfirvöld í Mosfellshreppi gera allt hvað þau gátu til að losna við þessa krakka. Án þess að ég viti það, grunar mig að ein leið til að losna við erfiðari börnin, hafi verið fólgin í að senda þau sem gerðu eitthvað af sér, hversu smávægilegt sem það var, í framhaldsvist að Breiðuvík.

Í ljósi þessa verður að skoða orð Bárðar Ragnars Jónssonar um færslu sína frá Reykjahlíð til Breiðuvíkur. Hann er rifinn frá kærleiksríku heimili til unglingaheimilis þar sem allt var á niðurleið. (Mér er þó kunnugt um að hann varð fyrir einelti í Brúarlands/Varmárskóla). Þá hefur tilraun Hallgríms Sveinssonar til að setja strákana í vinnu við búskapinn í stað launaðs starfsfólks, hleypt illu blóði í marga krakkana og þá sérstaklega þá sem komu vestur eftir að hið nýja fyrirkomulag komst á og hafa þeir litið á vinnuna sem enn frekari sönnun refsivistar þótt þetta hafi vafalaust verið gert í góðri trú. Þess má og geta að Hallgrímur var sjálfur alinn upp í örbirgð, en tókst að komast af eigin rammleik í gegnum kennaramenntun, kenndi síðan í heimavistarskólanum að Jaðri í eitt ár áður en hann fór vestur og tók við vistheimilinu í Breiðuvík. Þar var hann í tvö ár, frá 22 ára aldri til 24 ára aldurs, en hélt eftir það í Auðkúluhrepp og síðar á Þingeyri þar sem hann er enn og vafalaust í góðum metum.

Með þessum orðum lýkur skrifum mínum um Breiðuvíkurdrengina að sinni og þykir mörgum kominn tími til að ég snúi mér að skemmtilegri málefnum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli