mánudagur, febrúar 12, 2007

12. febrúar 2007 - Vörubíll fjölskyldunnar

Á undanförnum árum hefur það færst mjög í vöxt að menn hafi fengið sér stóra pallbíla til fjölskyldunota, til þess að draga hjólhýsið eða vélsleðann, eða þá hreinlega til að skreppa á út í Bónus að kaupa þrjá potta af mjólk og eitt fransbrauð. Þeir lenda svo í basli er fara skal í gegnum Hvalfjarðargöngin og þurfa að greiða mun hærra gjald fyrir að aka í gegnum göngin en annað fólk og nú er búið að herða á hraðareglum fyrir þessa bíla en áður.

Nú er farið að refsa mönnum fyrir að aka á þessum stóru bílum með því að sekta þá fyrir að aka á yfir 80 km hraða þar sem hámarkshraðinn er 90 km. Er það ekki dálítið varhugaverð stefna í umferðaröryggismálum? Ég má aka á 90 km hraða af því að bíllinn minn er undir 3,5 tonnum, en náunginn í næstu íbúð á bíl sem er 3,6 tonn og því má hann einungis aka á 80 km hraða og tekur að sér hlutverk lestarstjórans, oft gegn eigin vilja því hann vill gjarnan halda eðlilegum umferðarhraða.

Ég vil svo taka fram að ég vil heldur mæta stórum dráttarbíl á þröngum þjóðvegi en gömlum eftirlaunaþega úr Reykjavík á leið í sumarbústaðinn sinn. Sá á dráttarbílnum þekkir sín takmörk og víkur eins og mögulegt er, ekki gamli eftirlaunaþeginn úr Reykjavík.


0 ummæli:







Skrifa ummæli