þriðjudagur, febrúar 20, 2007

20. febrúar 2007 - Þegar Eyjamenn losnuðu við mig

Árið var 1980. Þáverandi maki hafði tekið þá ákvörðun að flytja frá Vestmannaeyjum hvort sem ég vildi fylgja með eður ei. Ég var því tilneydd að segja upp starfi mínu í Eyjum og flytja líka upp á land. Þegar hér var komið sögu var fjölskyldan farin upp á land, en ég var að ljúka við að pakka búslóðinni og koma henni út í sendibíl þegar síminn hringdi.

“Heyrðu, geturðu ekki leyst af á morgun eina ferð á Herjólfi?” spurði röddin í símanum.
“Nei, það get ég ekki gert” svaraði ég. “Ég er að flytja upp á land á morgun og fer með Herjólfi í fyrramálið til Þorlákshafnar”
“Flott” svaraði þá röddin í símanum, “þú getur þá tekið vaktina til Þorlákshafnar. Gústi er nefnilega að ljúka sumarfríinu sínu uppi á landi og getur þá tekið vaktina til baka!

Daginn eftir stóð ég vaktina um borð í Herjólfi til Þorlákshafnar. Er þangað var komið hitti ég Gústa og hann tók við vaktinni, en ég hélt til Reykjavíkur eins og áætlað hafði verið. Ég sem skipverji fékk að sjálfsögðu frítt fyrir mig og bílinn og búslóðina upp á land, en að auki fékk ég laun fyrir vaktina í hálfan dag.

Síðan þá get ég sagt með sanni að Vestmannaeyingar hafi borgað mér fyrir að flytja frá Eyjum.

(Frásögn áður sögð munnlega, en endursögð hér vegna andleysis bloggara).


0 ummæli:







Skrifa ummæli