sunnudagur, febrúar 11, 2007

11. febrúar 2007 - KSÍ eða ...?

Einhver Óskar var að setja út á einfalda spurningu mína um formannskjör KSÍ á blogginu mínu á laugardagseftirmiðdaginn þar sem ég spurði hvort Geir Þorsteinsson hefði verið kosinn formaður KSÍ af því að hann er karlmaður og Óskar segir á móti í athugasemdum:
“Auðvitað hvarflar það ekki að ykkur að hann hefði verið hæfasti frambjóðandinn.” Síðar kom ungur laganemi og Lifrarpollsaðdáandi og bætti um betur.

Ég vil taka fram að ég fylgist ákaflega lítið með knattspyrnu og knattleikjum yfirleitt. Því er mér nokk sama hver verður formaður KSÍ. Auk þess efast ég ekki um að Geir Þorsteinssson hafi staðið sig mjög vel sem framkvæmdastjóri KSÍ. Formannskjörið í KSÍ fjallaði bara ekki um fjárhag eða rekstur sambandsins, heldur um stefnu. Geir hefur lýst því yfir að hann ætli að halda áfram þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum. Langflestir þeir aðilar sem áttu kosningarétt á aðalfundinum voru honum sammála og lýðræðislega kosningu ber að virða.

Það eru komin meira en 40 ár síðan jafnrétti til launa var lögfest á Íslandi. Í dag hafa konur mun lægri laun en karlar þrátt fyrir þetta ákvæði. Þar sem greidd eru lágmarkslaun eftir taxta er launamunur yfirleitt mjög lítill og stundum enginn, en eftir því sem farið er ofar í samfélagstiganum eykst launamunurinn og er svo gífurlegur í efstu þrepunum sem ekki eru háð samningum eða kjaradómi.

Það eru komin um 90 ár síðan konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Enn eru konur einungis þriðjungur alþingismanna. Engin kona er meðal æðstu yfirmanna í bönkum, en nokkrar millistjórnendur og útibússtjórar.

Á íþróttavellinum fá karlmenn oft greitt fyrir að stunda áhugamálið. Konur verða að ganga í hús og selja klósettpappír til að fá að vera með í liðinu. Þær verða með öðrum orðum að greiða með sér.

Óbreytt stefna KSÍ þýðir áframhald þessa misréttis á knattspyrnuvellinum. Þetta er smám saman að renna upp fyrir fólki og þrýstingur mun aukast á ráðamenn knattspyrnumála að jafna þennan fjárhagslega mun. Þá þarf að hafa einhvern við stjórnvölinn sem vill breyta um stefnu í þessum málum. Þess vegna vonaðist ég til að Halla fengi öflugri stuðning en raunin varð.

Ég vona að Halla Gunnarsdóttir muni halda áfram að berjast fyrir auknum rétti kvenna í íþróttahreyfingunni. Ekki mun veita af. Ég mun svo halda áfram að styðja lið sem meta íþróttina umfram peningana eins og Halifaxhrepp og United of Manchester.


0 ummæli:







Skrifa ummæli