föstudagur, febrúar 23, 2007

23. febrúar 2007 - Var ég virkilega svona leiðinleg?

Ég var á aðalfundi Ættfræðifélagsins á fimmtudagskvöldið. Fundurinn var óskaplega hefðbundinn og voru aðalfundarstörf afgreidd eins og á færibandi, reikningar og skýrsla stjórnar samþykkt, engin hækkun félagsgjalda og einungis ein breyting á stjórninni. Ég hætti eftir að hafa setið í stjórn og varastjórn í fjögur ár, en síðasta árið sem ritari.

Það hefði mátt ætla að ég hefði verið svona afspyrnu leiðinleg. Í fleiri ár sat ég mína stjórnarfundi og nöldraði. Það voru aldrei til nægir peningar og ég vildi alltaf fara aðrar leiðir í fjáröflun en restin af stjórninni. Þegar heimasíðan lagðist af, var ég eins og versta norn og kvartaði og kveinkaði mér yfir áhugaleysi stjórnarmanna. Það var allt ómögulegt! Engin heimasíða, engir peningar, ekkert starf.

Formaður hafði varla lesið skýrslu stjórnar þar sem fram kom að ég væri að hætta í stjórninni, en að hann byrjaði að þylja upp öll nýju framkvæmdaatriðin, heimasíðan komin á ný á veraldarvefinn, fullt til af peningum, en engin AnnaK til að bruðla með þá og skammast yfir ómögulegheitunum.

Eftir fjögur ár í stjórn Ættfræðifélagsins sit ég uppi með þá skömm að hafa sjálf verið helsti dragbíturinn í starfi félagsins og sé ég nú fram á betri daga með blóm í haga, án þátttöku minnar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli