laugardagur, febrúar 10, 2007

10. febrúar 2007 - II - Að hverju hlær fólkið?

Ég var að fletta laugardagsútgáfu Fréttablaðsins og varð starsýnt á forsíðu blaðsins. Þar er forseti Íslands sýndur þar sem hann bendir á yfirbyggingu líkans af farþegaskipinu Gullfossi og hjá standa tvær konur sem skellihlæja. Ég fór að velta fyrir mér hvað væri svona hlægilegt við þetta merkilega skip sem þjónaði Íslendingum í 23 ár, flutti fólk til og frá landinu, en kom reglulega heim aftur með Andrés önd, Hjemmet og Familie journal. Var þetta fólk kannski að hlæja að siglingasögu íslensku þjóðarinnar?

http://vefblod.visir.is/public/getFile.php?type=image&file=1_1_15.jpg

http://vefblod.visir.is/public/index.php?netpaper=218


Á sama tíma berast okkur fréttir af illum aðbúnaði áhafnar skips sem kom til landsins færandi varninginn heim (súrál er líka varningur), skip skráð í Panama í eigu grískrar útgerðar, með áhöfn frá Georgíu og Úkraínu. Í fréttum kemur fram að áhöfnin hafi ekki fengið greidd laun í marga mánuði og allt fæði um borð af skornum skammti, en þess meira af kakkalökkum.

Suður á Hvalsnesi nærri Sandgerði stendur annað skip uppi á grynningum, skip sem var skráð á Kýpur með áhöfn frá Austur-Evrópu. Það ágæta skip flutti varninginn heim um margra ára skeið með íslenskri áhöfn og undir íslenskum fána. Fátækleg laun íslenskrar áhafnar skipsins urðu til þess að skráning skipsins var færð til Kýpur, eigendaskráningin til Noregs, íslenskri áhöfn sagt upp og útlendingar ráðnir í staðinn á sultarkjörum. Nú stendur það á grynningum eftir hugsanlegt kæruleysi áhafnarinnar og bíður þess að vera rifið á staðnum.

Er fólk nokkuð búið að gleyma Vikartindi?

Í dag er ekkert skip skráð á Íslandi í millilandaflutningum með fólk og vörur. Íslenskri farmannastétt er að blæða út og íslensk stjórnvöld aðhafast ekkert til að bæta úr þessum málum. Til þess að hæðast enn frekar að niðurlægingu íslenskrar farmannastéttar, tók íslenski samgönguráðherrann þátt í að taka á móti skipi fyrir hönd Færeyinga fyrir tveimur árum, skipi sem siglir reglulega til Íslands færandi varninginn heim.

Mér varð ekki hlátur í hug við þessa mynd á forsíðu Fréttablaðsins. Þvert á móti.


0 ummæli:Skrifa ummæli