þriðjudagur, febrúar 27, 2007

27. febrúar 2007 - IV - Björn, Ögmundur og Steingrímur

Ónefndur bloggvinur benti mér góðfúslega á að greiningardeild Björns Bjarnasonar væri ekki eins og Stasi. Þetta er auðvitað hárrétt hjá honum og bið ég hann fyrirgefningar á ógætilegu orðalagi mínu, enda hefi ég notað Stasi um allt aðra stofnun á Íslandi og öllu öfgameiri. Nær væri að líkja umræddri greiningardeild við greiningardeild Ceausescus sáluga sem kölluð var Securitate. Enn og aftur bið ég bloggvin minn afsökunar á framferði mínu.

Sú stofnun sem ég hefi stundum líkt við Stasi er matvælalögregla ríkisins, kölluð Lýðheilsustöð. Sú stofnun er einhver sá alversti óskapnaður sem stofnaður hefur verið á Íslandi og ljóst að með stofnun hennar voru gerð slæm mistök sem einungis er hægt að leiðrétta með því að leggja hana niður. Síðast á þriðjudagskvöldið lagði fyrrum flokksfélagi minn Ögmundur Jónasson til í Kastljósi að fylgt yrði ráðum hennar og matarskatturinn hækkaður á sumum vörum matarkyns sem ekki eru Lýðheilsustöð þóknanleg. Með þessari hlýðni við matvælalögguna hefur Ögmundur svarið sig í forræðisætt Steingríms Jóhanns sem vill setja á netlöggu.

Mínir kæru Ögmundur og Steingrímur. Hættið þessari forræðishyggju ykkar í hvert sinn sem þið mælist með fylgi í skoðanakönnunum. Þið komið alltaf upp um ykkur og skoðanir ykkar standa kviknaktar á eftir eins og klámstjörnur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli