sunnudagur, febrúar 25, 2007

25. febrúar 2007 - Hvar var ég öll þessi ár?

Ég skrapp í kaffi upp á Skipaskaga á laugardaginn og tók með bloggvinkonuna Grafarþögn http://sjos.blog.is . Eftir að hafa setið og spjallað við nokkra góða bloggvini og etið kökur með kaffinu svo klukkustundum skipti, var haldið til höfuðborgarinnar að nýju og meira kaffi drukkið í Grafarþögninni http://sjos.blog.is .

Ég kíkti á bækurnar hjá Sigríði og Ómari og komst snarlega að því að þau áttu allnokkrar bækur um ættfræði sem ég á ekki, þar á meðal eina ættarsögu með niðjatali sem var gefin út fyrir einungis tveimur árum síðan. Auk hennar sá ég þarna ábúendatal Sléttuhrepps sem var gefin út fyrir um 35 árum síðan og svo Flugumferðarstjóratal auk nokkurra minni og áhugaverðra rita. Ég sem stóð í þeirri meiningu að ég ætti þetta mestallt.

Nú þarf ég ekki lengur að eyða tímanum í áhyggjur af einhverju ógerðu í ættfræðinni og get snúið mér að því að fylla í eyðurnar um leið og ég velti því fyrir mér, hvar ég var öll þessi ár.

Ef einhver á til niðjatal frá síðasta ættarmóti eða væntanlegu ættarmóti, er bara að láta mig vita, því ég þigg öll slík rit með þökkum, en einnig þau rit sem ég á ekki og þarf að greiða fáeinar krónur fyrir.

http://gurrihar.blog.is
http://alvaran.com
http://gjonsson.blog.is

P.s. Næsta bloggpartí verður haldið í Borgarnesi nærri Guðrúnu Völu!!!!

-----oOo-----

Vegna fréttar í Morgunblaðinu um barn með tólf fingur rifjaði ég upp æsku mína á Moggabloggi og hugsaði til frænda míns undir fyrirsögninni, "Kunna veðurfræðingar ekki að telja?" :

Móðurbróðir minn fæddist með sex fingur á annarri hendi, þ.e. var með tvo þumla á þeirri hendinni. Aukaþumallinn var fjarlægður eftir að frændi minn varð fullorðinn. Hann varð veðurfræðingur, þjóðþekktur sem slíkur og nú á eftirlaunum.

Ég veit ekki til þess að þessi "fötlun" hafi nokkuð háð honum í lífinu, en merkilegur þótt mér þessi aukafingur er ég var barn að aldri.


0 ummæli:







Skrifa ummæli