þriðjudagur, febrúar 13, 2007

13. febrúar 2007 - Barnaheimilið að Reykjahlíð

Ég átti löng og ítarleg samtöl við fyrrum forstöðukonu barnaheimilisins að Reykjahlíð í Mosfellsdal um helgina. Ástæða þess að ég hafði samband við hana, var að ég vildi heyra hennar hlið af fréttum af drengjunum frá Breiðuvík, vitandi að margir þeirra höfðu áður dvalið í Reykjahlíð, sumir í fyrsta sinn á ævinni á kærleiksheimili.

Fyrir okkur sem ólumst upp í Reykjahlíð komu fréttirnar frá Breiðuvík sem reiðarslag. Þótt við hefðum gert okkur grein fyrir því sem kalla má refsivist barna í Breiðuvík, þá höfðum við einhvernveginn byggt okkur múr um sannleikann og lokað hugann frá þeirri skelfingu sem ríkti vestra, kannski sumpart fyrir þá sök að sá sem helst var nefndur sem helsti kvalari drengjanna hafði aðrar áherslur í uppeldismálum en taldar eru skynsamar í dag.

Í Reykjahlíð réðu konur öllu. Lengi höfðum við ráðsmann konunum til aðstoðar og til að sjá um innkaup og keyrslu til skóla, en hann hélt á braut árið 1962 til konu sinnar og nýlega fædds sonar sem nú er einn virtasti lögfræðingur þjóðarinnar. Hann var heldur ekkert að skipta sér af okkur frekar en þörfin lagði honum á brýn. Okkur var ávallt stjórnað af konum. Lengi vel var barnaheimilinu stjórnað af hjúkrunarkonu. Þegar hún fór á eftirlaun árið 1961 og tók eitt yngsta barnið með sér og ól upp á heimili sínu, tók kennslukona við störfum hennar og lagði alúð sína í að gera barnaheimilið eins barnvænt og kostur var.

Þarna voru börn sem áttu barnaheimilinu allt sitt að þakka. Munaðarlaus börn, börn sem voru afskipt af foreldrum sínum, börn óþekkta hermannsins og börn af brotnum heimilum eða dvöldu tímabundið á heimilinu vegna erfiðleika heimafyrir. Þarna hlutu sum þessara barna einasta kærleika bernsku sinnar og æsku

Þeim krökkum frá Reykjahlíð sem aldrei fóru vestur, er jafnmikið brugðið yfir reynslu drengjanna í Breiðuvík og öðrum þegnum þessa þjóðfélags sem við lifum í. Í sjónvarpsfréttum sjáum við vini okkar frá uppeldinu segja frá skelfilegri reynslu sinni með tár í augum. Sum okkar þekkja ungan kennara sem rak heimilið um tveggja ára skeið á árunum 1962-1964, hins ágætasta manns sem nú þarf að verja heiður sinn. En okkur er fyrirmunað að skilja þann heraga sem ríkti á meðan skipstjóri, nýkominn í land, stjórnaði Breiðuvík með harðri hendi á eftir kennaranum unga.

Forstöðumaður barnaverndarstofu vill rannsaka íslensk barnaheimili á sjöunda áratugnum ofan í kjölinn. Ef að líkum lætur mun hann hafa samband við mig sem eitt þessara barna sem ólust upp fjarri foreldrum sínum. Ég mun segja honum sannleikann, enda fæ ég engar bæturnar. Mín bernska og æska að tólf ára aldri var á barnaheimilinu að Reykjahlíð undir verndarvæng Guðbjargar Árnadóttur hjúkrunarkonu og síðan Sigríðar Maríu Jónsdóttur kennara og skóladvöl í Brúarlandsskóla og Varmárskóla undir stjórn Lárusar Halldórssonar skólastjóra og Birgis Sveinssonar kennara og síðar skólastjóra. Með stuðningi þessa ágæta fólks og margra fleiri átti ég yndislega æsku.

-----oOo-----

Þeim lýsingum sem sagðar voru af barnaheimilinu að Reykjahlíð í Kastljósi sjónvarpsins mánudagskvöldið 12. febrúar 2007, vísa ég til föðurhúsanna. Það má vel vera að viðmælandi Kastljóssins hafi upplifað vistina á þann hátt sem hún lýsir, en það er einungis hennar upplifun og hugsanlega einhverra fleiri. Hinsvegar hefi ég rætt málin við nokkur þeirra barna sem ólust upp í Reykjahlíð á sjötta og sjöunda áratugnum og öll erum sammála um að þar hafi verið gott að vera og aldrei var ég pínd til að borða hafragrautinn eins og viðmælandinn lýsir. Sá grautur hefur þó aldrei verið í uppáhaldi hjá mér.


0 ummæli:Skrifa ummæli