laugardagur, febrúar 10, 2007

10. febrúar 2007 - Er ekkert meira sem þarf að endurskoða?

Bandaríkjamenn hafa miklar áhyggjur af því að sex þyrlur á þeirra vegum hafa verið skotnar niður á skömmum tíma. Ég hefi líka áhyggjur af þessu vandamáli. Kannski ekki því að þeir hafi tapað sex rándýrum þyrlum. Bandaríkjamenn hafa nefnilega tapað miklu meiru en sex þyrlum í Írak.

Þegar þessu orð eru rituð, hafa Bandaríkin misst 2979 hermenn í stríðinu í Írak frá því George Dobbljú Bush lýsti því yfir að stríðinu væri lokið með sigri Bandaríkjamanna hinn 1. maí 2003. Samtals hafa Bandaríkjamenn misst 3118 hermenn í Írak. Þessir 2979 hermenn sem féllu eftir sigurinn, eru tveimur fleiri en talið er að hafi farist í árásunum á tvíburaturnana í New York þann 11. september 2001.

Það er full ástæða til að gráta þá tugi eða hundruð þúsunda Íraka sem hafa fallið á síðustu fjórum árum. En það er líka full ástæða til að gráta sérhvern þessara 3118 hermanna því þeir féllu í tilgangsleysi, þeir féllu án raunverulegrar ástæðu til innrásar, þeir féllu af því að æðsti yfirmaður þeirra hélt sig vera yfirlögreglustjóra jarðarinnar en reyndist ekki hafa umboð jarðarbúa til starfa sinna.

Í dag eru Bandaríkjamenn í vondum málum, því það er sama hvað þeir gera úr þessu, það verða mistök. Ef þeir halda áfram þátttöku í borgarastyrjöldinni sem stendur yfir um þessar mundir, munu þeir missa fjölda sinna manna í viðbót. Ef þeir hinsvegar ákveða að draga herlið sitt heim, mun borgarastyrjöldin magnast og verða að algjörri ringulreið og hugsanlega enda með skiptingu Írak í þrjú eða fleiri smáríki.

Það er illa komið fyrir einu elsta þjóðríki heimsins.

http://antiwar.com/casualties/


0 ummæli:







Skrifa ummæli