miðvikudagur, febrúar 28, 2007

28. febrúar 2007 - Mér þykir vænt um Framsókn :)

Margrét bloggvinkona mín í Tungunum bar mér það á brýn á þriðjudag að ég hataði Framsóknarmenn. Það er vissulega rétt að ég hefi lagt Framsóknarflokkinn í einelti, en að ég hati Framsóknarmenn, það er af og frá. Mér þykir undurvænt um þá alla saman, Gústa, Alfreð, Óla Hjálmars og fleiri og fleiri. Til þess að sýna þeim hve mikið mér þykir vænt um þá, ætla ég ekki einu sinni að segja alla þrjá á undan upptalningu minni á Gústa, Alfreð og Óla.

Í okkur öllum leynist lítill Framsóknarpúki. Flest okkar þorum ekki að sleppa honum út og verðum því kratar og kommar og íhald. Fáeinir koma út úr skápnum og viðurkenna arfgenga áráttu sína, mæta á kjörstað og merkja ex við Bjé (þó ekki ég eins og gefur að skilja).

Sjálf hefi ég aldrei þorað að sleppa Framsóknarkonunni út af mér. Ég var íhald til fjórtán ára aldurs, kommi í fjörtíu ár þar til ég náði 54 ára aldri, en krati eftir það, nánar tiltekið, flokksbundin jafnaðarmanneskja á vinstri væng Samfylkingar, Evrópusinni og friðarsinni og vonandi einnig feministi.

Þótt mér þyki svona ofboðslega vænt um flokksbundna Framsóknarmenn, mun ég fagna hverjum þeim Framsóknarmanni sem sér villur síns vegar og kemur yfir til okkar í Samfylkinguna. Þó helst ekki Guðna. Hann myndi ekki finna sig í Samfylkingunni, ekki frekar en Kiddi sleggja í Framsóknarflokknum.


0 ummæli:Skrifa ummæli