fimmtudagur, mars 01, 2007

1. mars 2007 - Enn þykir mér vænt um Framsókn!

Í gær varð mér það á að skrifa lofgjörð um Framsókn á bloggið mitt. Það hefði ég aldrei átt að gera. Aðsóknin að síðunni minni hrundi niður á nánast ekki neitt. Þó var þetta mjög fræðileg og gáfuleg grein um Framsóknarmenn og flokkinn þeirra.

Ég gerði heilmikla úttekt á Framsóknarpúkanum og nefndi nokkra góða Framsóknarmenn til sönnunar málflutningi mínum og bauð þá flesta velkomna yfir til Samfylkingarinnar, eiginlega alla nema Guðna sem vill vera áfram í Framsóknarflokknum, en allt kom fyrir ekki. Aðsóknin féll ofan í nánast ekki neitt.

Ber að skilja þetta sem að venjulegir Íslendingar vilji losna við Framsóknarflokkinn úr íslenskri pólitík og setja á safn?

Framsóknarflokkurinn hefur löngum bjargað mér frá ritstíflu á stundum þegar ekkert er um að vera í samfélaginu, því á slíkum stundum hefur ávallt verið mögulegt að skjóta á Framsóknarmenn og leggja í einelti. Því yrðu það hræðileg vonbrigði ef flokkurinn þurrkaðist út af yfirborðinu. Sömuleiðis yrðu það enn verri vonbrigði fyrir mig ef fólk hætti að lesa heimsspekilegar hugleiðingar mínar um Framsóknarflokkinn og væntanlegt fráfall hans.


0 ummæli:







Skrifa ummæli