fimmtudagur, mars 22, 2007

22. mars 2007 - Vesalings Pia!



Þegar ég hafði gengið í gegnum aðgerðarferli mitt í Svíþjóð fyrir 12 árum síðan, lenti ég í stappi við yfirvöld vegna eftirnafnsins, en Patent och registreringsverket (PRV) sem sér um nafnabreytingar ásamt öðru, neitaði mér um breytingu á eftirnafninu af því að það væri ekki nógu sænskt. Til að gera málið enn hjákátlegra, hét fulltrúinn sem úrskurðaði í málinu, einhverju nafni sem hljómaði eins og finnskt.

Komin þetta langt í ferlinu, var ég alls ekki sátt við að fá ekki mitt rammíslenska eftirnafn og kærði úrskurðinn umsvifalaust til Kammarrätten. Ég fékk Þórgunni Snædal rúnafræðing hjá Riksantikvarieembätet til að semja bréf til réttarins þar sem hún sýndi fram á það með rökum, að ekkert væri eins sænskt eins og eftirnafn mitt því þannig væru eftirnöfn sænskra kvenna rituð á sænskum rúnasteinum. Kammarrätten tók þetta til greina, snéri snarlega við úrskurði frú L. hjá PRV og viðurkenndi rétt minn til þess að bera mitt rammíslenska eftirnafn sem ég hefi borið með stolti allar götur síðan.

Þessi skemmtilegu tímamót í lífi mínu komu upp í hugann þegar ég heyrði af henni Piu sem ekki fær að heita Pia af því að hún er enn með typpi þótt hún hafi lifað í mörg ár sem kona. Kerfinu finnst hún ekki mega heita Pia þótt hún sé orðin 62 ára og því væntanlega fullfær um að meta sjálf hvað hún eigi að heita.

Pia hefur ekki óskað eftir leiðréttingu á kynferði sínu, en vill fá að halda áfram að lifa í kvenhlutverki á sínum eigin forsendum, þ.e. sem transgender án aðgerðar. Í slíkum tilfellum er boðið upp á möguleika á svokölluðum kynhlutlausum nöfnum í Svíþjóð, nöfnum á borð við Kim, Linus og Maria. Nafnið Pia er ekki í þeim hópi og því hefur henni verið neitað og verður því að halda áfram að heita Lennart.

Þrátt fyrir að Pia segist hafa reynt nóg, vona ég að hún haldi áfram að berjast, þó ekki sé til annars en að auka möguleika transgender fólks í framtíðinni fyrir betra lífi.

Þótt ástand nafnalaga sé slæmt í Svíþjóð, er það sem hátíð miðað við Ísland.

http://www.aftonbladet.se/vss/nyheter/story/0,2789,1026157,00.html

-----oOo-----

P.s. Mér var farið að leiðast í fríinu og náði mér því í eina aukavakt!


0 ummæli:







Skrifa ummæli