þriðjudagur, mars 06, 2007

7. mars 2007 - Kætast klámhundar í Sódómu!

Vinkona mín, Parísardaman, benti okkur saklausum og siðprúðum Íslendingum á mjög áhugaverðan bókmenntafyrirlestur sem haldinn verður í Háskóla Íslands 20. apríl næstkomandi undir merkjum Pourquoi Pas?, Franskt vor á Íslandi. Þar mun franski rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Alain Robbe-Grillet halda bókasýningu og kynna verk sín. Að sögn þeirra sem betur þekkja til en ég geri, er Alain Robbe-Grillet masókisti og hin leðurklædda eiginkona hans, Catherine Robbe-Grillet, jafnframt stjórnandi hans og “Siðameistarinn” í sambúðinni.

Ég vil taka fram að ég þekki ekkert til bókmenntaverka Alain Robbe-Grillet né hans sjálfs og sjálfur hefur hann ekkert verið að flíka kynhneigð sinni, en ein kvikmynda hans vekur hjá mér ákveðnar væntingar sbr. Transamerica, en það er kvikmyndin Trans-Europe-Express. Eiginkonan, hin leðurklædda Catherine, er öllu áhugaverðari fyrir okkur perrana, en hún hefur skrifað bækur í BDSM-anda undir dulnefnunum Jean de Berg og Jeanne de Berg. Þá hefur hún skrifað fræga blaðagrein í félagi við Catherine Millet sem hét því merkilega nafni: "Ekki sekar, ekki fórnarlömb: Frjálst að stunda vændi". Mér skilst að sú grein hafi verið rituð til réttlætingar á vændi í Frakklandi.

Catherine_Millet hefur m.a. skrifað metsölubókina “The Sexual Life of Catherine M” þar sem hún lýsir þróun kynlífs síns allt frá sjálfsfróun æskunnar til hópkynlífs fullorðinsáranna. (Ef þið eigið þessa bók í bókaskápnum ykkar, ekki segja klámlöggunni frá því).

Þegar haft er í huga að erlendum klámhundum var neitað um gistingu á íslenskum hótelum, hvernig verður þá tekið á móti þessum ágætu hjónum sem reyndar hafa komið áður til Íslands, á bókmenntahátið árið 1987? Ætli megi búast við vinstrigrænum fjöldamótmælum og ítrekuðum kröfum um klám- og netlöggur?

-----oOo-----

Örlítið atvik úr hversdagslífinu. Á þriðjudag fór ég með minn vinstrigræna eðalvagn í dekurmeðferð, en þau verðlaun á hann fyllilega skilið eftir að hafa þjónað mér dyggilega og af trúrækni á fimmta ár af tæplega tíu ára líftíma sínum. Þar verður hann allur nuddaður í eðalolíum og fægður og pússaður með bryngljáavörn sem bróðursonur minn í Litlu bónstöðinni veitir honum. Heppinn!


0 ummæli:







Skrifa ummæli