þriðjudagur, mars 06, 2007

6. mars 2007 - Þegar Ómar hafði hár!

Mér þykir vænt um Ómar Ragnarsson. Á mínum yngri árum þegar Ómar var aðeins yngri, voru Botníuvísur kyrjaðar á hverjum bæ í Mosfellssveitinni og voru að sjálfsögðu uppáhaldslag okkar krakkanna. Þá má ekki gleyma snilldartextum Ómars í lögunum Ást, ást, ást og Sveitaball ásamt mörgum öðrum góðum lögum. Nokkrum árum síðar eignaðist systir mín hljómplötu með lögum Ómars sem hann flutti á skemmtun í Austurbæjarbíó og þar sem hann var talinn ganga á ystu nöf velsæmis þess tíma samanber flissið sem heyrðist á þessari ágætu tónleikaplötu. Þá átti Ómar NSU-Prinz (með Wankel vél?) og lét sig dreyma um öflugan Ford í textum sínum.


Núna er Ómar á leið í framboð. Ég veit ekki hvernig honum mun reiða af í pólitík en hann mun hafa Margréti Sverrisdóttur og Ólaf Friðrik Magnússon sér til stuðnings og munu þau vafalaust fá einhver atkvæði, hugsanlega mörg. Með þessu framboði Ómars sem kemst á “aldur” í september næstkomandi en þá verður hann 67 ára, er um leið bundinn endir endir á möguleika Félags eldri borgara og öryrkja til að láta kveða að sér á Alþingi á hausti komanda. Ég veit ekki hvort náttúruverndarsjónarmið gamla bændasamfélagsins muni reiknast Ómari til tekna, en óttast að atkvæði Framsóknarmanna muni dreifast víðar en ætlað var með þessu framboði, enda þykir mér líka vænt um Framsóknarmenn eins og áður er getið.


Fjórða hjólið undir vagni Ómars, Margrétar og Ólafs Friðriks heitir Jakob Frímann Magnússon. Þótt mér þyki vænt um Stuðmenn rétt eins og Ómar, á væntumþykkja mín til Stuðmanna einkum við um Valgeir Guðjónsson og Egil Ólafsson, en ekki um Jakob Frímann Magnússon. Þessi fáu skipti sem ég hefi rekist á hann, hefur hann borið með sér dramblæti slíkt að ég get ekki stutt þennan mann til ábyrgðarstarfa og þakka honum kærlega fyrir að hafa yfirgefið Samfylkinguna, en hann hefur sjálfur flokkað sig sem hægri krata af sama meiði og Tony Blair og allir vita hvernig sá maður hefur málað sig út í horn með þátttöku sinni í stríði sem betur hefði aldrei verið háð.


Undir geislanum á viðtækinu mínu hljómar lag Ómars Ragnarssonar “Þrjú hjól undir bílnum”
Ég er ekki viss um að loftið í fjórða hjólinu undir vagninum muni endast eins vel og hin þrjú.


0 ummæli:







Skrifa ummæli