föstudagur, mars 02, 2007

2. mars 2007 - II - Eru Íslendingar stressaðir?

Íslendingar sem búa erlendis og skreppa í heimsókn til Íslands, hafa margir á orði að allt sé svo yfirmáta stressað á Íslandi, allir séu að flýta sér og enginn megi vera að því að slappa af og njóta lífsins. Mikið rétt. Alveg furðulegt hvað Íslendingar eru stressaðir.

Ég fékk heimsókn í dag. Skreiddist á fætur fyrir allar aldir, þ.e. fyrir hádegi og skrapp á bókamarkaðinn áður en föstudagsflaumurinn streymdi þangað inn. Á meðan ég var þar hringdi síminn og vinkona mín sem býr erlendis, alveg indælis manneskja, vildi endilega kíkja í heimsókn. Ég sagði henni að ég yrði komin heim klukkan eitt og þar við sat. Skömmu eftir að ég kom heim, kom hún færandi hendi og var þá kaffið rétt að síga niður í könnunni. Hún kvartaði sáran yfir stressinu á Íslandi, umferðinni, föstudagstaugaveikluninni og guð má vita hverju. Ég var henni hjartanlega sammála, bauð henni kaffi en meðlætið hafði hún með sér.

Hún vildi fá að hringja og var það sjálfsagt mál. Ekki gengur að hringja í stofnanir á föstudegi og að auki daginn eftir útborgun, í gegnum farsíma með frelsiskorti. Svo hringdi hún og hringdi og hringdi og afgreiddi hvert málið á fætur öðru í gegnum símann. Svo lauk hún erindum sínum, nefndi eitthvað um stressið í Íslendingum, kvaddi og fór til að sinna þeim erindum sem hún gat ekki sinnt með símtölum. Eftir sátum ég og kisurnar mínar og vissum vart hvaðan á okkur stóð veðrið.

Einhver var að tala um stressið á Íslandi!


0 ummæli:







Skrifa ummæli