föstudagur, mars 30, 2007

30. mars 2007 - Að skera byggðalög með þjóðvegi!

Um daginn heyrði ég viðtöl Gísla Einarssonar við tvo Borgnesinga, sveitastjórnarmann sem vildi færa þjóðveg nr 1 út fyrir bæinn og svo kaupmann sem vildi hafa þjóðveginn áfram í gegnum bæinn en með hæfilegum fjölda af hraðahindrunum til að tryggja að þeir ökumenn sem ættu leið í gegn gætu skoðað í búðaglugga á leið sinni norður í land eða hvert sem þeir voru að fara.

Nú hafa sveitastjórnarmenn á Blönduósi ítrekað fyrri mótmæli sín gegn færslu hringvegarins út fyrir þorpið. Er ekki kominn tími til að stoppa svona hreppasjónarmið af?

Sú gamla aðferð að leggja þjóðvegina í gegnum hvert þorpið á fætur öðru er löngu úrelt. Auk hættunnar sem stafar af mikilli þungaumferð í gegnum þorpin, má nefna hávaða og mengun sem umferðinni er samfara. Því er víða búið að leggja aðalþjóðbrautirnar framhjá bæjunum og jafnvel heilu borgunum. Samkvæmt nýlegri áætlun sem ég sá fyrir ekki svo löngu síðan, á t.d. að leggja Suðurlandsveg og nýja brú yfir Ölfusá norðan við miðbæinn á Selfossi og kæmi hann þá inn á gamla Suðurlandsveginn austan við Mjólkubú Flóamanna, nærri Laugardælum ef mig misminnir ekki. Áætlun sú sem Borgnesingar tala um til að vernda börnin sín, gengur út á að þjóðvegurinn liggi meðfram sjónum og austur fyrir bæinn.

Mér sýnist lítil þörf á sérstakri vegasjoppu á leiðinni frá Staðarskála að Varmahlíð. Ég legg því til að fólk sem á leið norður í land sleppi því að stoppa í sjoppunni á Blönduósi uns sveitarfélagið hefur samþykkt að færa vegastæðið að Svínavatni, íbúunum og alþjóð til heilla.

Með því móti sleppum við kannski við að fá háværar kröfur um lagningu góðs heilsársvegar yfir Kjöl!


0 ummæli:







Skrifa ummæli