föstudagur, mars 23, 2007

23. mars 2007 - Ómar og Bubbi og Kobbi og kannski Margét Sv!


Þegar Lennon lýsti því fyrir bandarískum sjónvarpsáhorfendum að Bítlarnir væru vinsælli en Jesús Kr. Jósefsson tóku sumir harðlínumenn í bandarískum trúmálum sig til og hófu að brjóta plötur Bítlanna.

Þessi aðgerð, að brjóta plötur og brenna bækur var ekkert ný uppfinning. Slíkt hefur verið stundað frá því prentlistin var fundin upp, að brenna bækur höfunda sem fólki voru ekki þóknanlegar og síðar brjóta plötur tónskálda sem fóru gegn skoðunum handhafa platnanna hverju sinni. Frægar eru bókabrennurnar í Þýskalandi nasismans og síðar í hinum hernumdu löndum þeirra og sennilega náðu hljómplötubrotin hámarki vestur í Bandaríkjunum er Lennon sagði þennan súra sannleika um vinsældir Bítlanna

Það var haldinn blaðamannafundur í Reykjavík á fimmtudag þar sem Íslandshreyfingin kynnti sig fyrir alþjóð. Í sjónvarpsfréttum mátti sjá ýmsa mektarmenn, Ómar Ragnarsson formann flokksins, Jakob Frímann Magnússon og Bubba Mortens hljómlistarmenn og fleira gott fólk sem vill láta gott af sér leiða á Íslandi í framtíðinni. Ég hafði skoðun á ýmsu sem Ómar Ragnarsson lét út úr sér og ekki allt jákvætt. Satt best að segja var ég ósammála Ómari í veigamiklum atriðum, t.d. varðandi náttúruvernd og áliðnað. Þá hefi ég áður lýst yfir andúð minni á drambsemi Jakobs Frímanns Magnússonar og ég hefi ekki alltaf verið sammála Bubba Mortens á undanförnum árum og þar sem mér hefur þótt miður að sjá hann gefa sig auðvaldinu á hönd.

Ég veit að ég má ekki segja þetta, en stundum finnst mér eins og Margrét Sverrisdóttir sé sér á báti í þessum nýja flokki, rétt eins og hún var sér á báti í Frjálslynda flokknum. Hún á sér bakland í fjölskyldu sinni og nánum vinum eins og bloggvinkonu minni og ættfræðivinkonu sem býr í Grafarholtinu. Mér finnast sumir hinna vera eins og fallandi stjörnur að leita sér nýrrar frægðar með stuðningi sínum við nýju Íslandshreyfinguna, þar með taldir hljómlistarmennirnir þrír sem áður eru upptaldir.

Þeir munu engin pólitísk áhrif hafa á mig, en í staðinn lofa ég þeim, að ég mun ekki brjóta hljómdiska Ómars Ragnarssonar, Stuðmanna og Bubba Mortens, heldur halda áfram að njóta þeirra fornu frægðar svo lengi sem ég lifi!

-----oOo-----

Svo fær litla Margrét hamingjuóskir með afmælisdaginn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli