þriðjudagur, mars 27, 2007

28. mars 2007 - Of lengi á leiðinni?

Þegar ég bjó í efra Breiðholti og aðalstöðvar Hitaveitunnar, síðar hitaveituhluta Orkuveitunnar voru á Grensásvegi, lagði ég jafnan af stað að heiman klukkan 07:30 á morgnanna. Ég vissi ósköp vel að ég yrði komin tímanlega í vinnuna, enda tók það mig einungis tíu mínútur að keyra þennan spotta snemma morguns. Eftir það gilti einföld þumalputtaregla. Fyrir hverja þá mínútu sem ég fór seinna af stað að heiman þurfti ég að jafnaði að bæta einni mínútu við ferðatímann. Ef ég lagði af stað að heiman klukkan 07:35 var ég kortér að skjótast þessa vegalengd og ef mér seinkaði og fór að heiman 07:40, var ég á mörkum þess að koma í tæka tíð í vinnuna.

Til að spara mér tímann og stressið, vaknaði ég ávallt klukkan 06:45, lagði af stað í vinnuna klukkan 07:30 og hafði því tíma til að fá mér kaffibolla í rólegheitum áður en vinnutíminn hófst.

Í þriðjudagsMogganum var næstum opnugrein um mæðgur sem eyddu 35 mínútum til að komast í vinnuna og fannst ferðatíminn ómögulegur. Að þeirra sögn komu þær oft of seint í vinnuna, önnur í Verslunarskólann, hin á Suðurlandsbrautina, en í umræddri grein lögðu þær að heiman klukkan 07:40, það er á versta mögulega tíma til að komast hratt og vel og örugglega frá Áslandshverfi í Hafnarfirði á ákvörðunarstaði í Reykjavík.

Í stað þess að aka leiðina eðlilega og í rólegheitum, eru þær að stressast á leiðinni og allt verður ómögulegt ef þær koma of seint í vinnuna. Af hverju leggja þær ekki bara fyrr af stað á morgnanna? Þær geta einungis kennt sjálfum sér um stressið í stað þess að fá sér morgunsopann í vinnunni eða skólanum og geta svo hvílst eðlilega að kvöldi.

Í dag vakna ég eins og áður klukkan 06:45 ef ég þarf að fara á dagvakt eða til dagvinnu, en legg af stað gangandi að heiman klukkan 07:45. Þó er ég komin í vinnuna upp úr klukkan 07:50, því það er gott að búa í Árbænum! Mæðgurnar ættu að prófa hið sama og flytja í Árbæinn og þyrftu þá aðeins að leggja af stað að heiman klukkan 07:40 til að vera í vinnunni á réttum tíma.Ef þær vilja hinsvegar ekki flytja, má benda þeim á stórt og gott fyrirtæki sem blasir við út um stofugluggann hjá þeim og þar sem sagt er vera gott að starfa.

-----oOo-----

Ég er komin í páskafrí og þá loks fæ ég þessa flensu sem er að hrjá mörlandann. Af hverju get ég ekki verið veik í vinnutímanum eins og venjulegt fólk?


0 ummæli:







Skrifa ummæli