föstudagur, mars 30, 2007

30. mars 2007 - II - Hernaðarhyggja Björns Bjarnasonar



Fyrir nákvæmlega 58 árum, þann 30. mars 1949 voru Heimdellingar notaðir til að berja á stjórnarandstæðingum sem voru andvígir hernaðarhyggju þáverandi stjórnvalda. Í lok maí 1973 var kallað í hjálparsveitir til að styðja við lögregluna við öryggisvörslu vegna fundar forsetanna Nixons og Pompidou. Sömuleiðis var kallað í hjálparsveitir skáta þegar Reagan og Gorbatsjov hittust í Reykjavík þrettán árum síðar.

Ef aðkoma Heimdallar er frátalin, virðist komin ákveðin hefð fyrir aðkomu björgunarsveita að stuðningi við lögregluna þegar mikið liggur við og ljóst að almennt lögreglulið nægir varla í slíkum tilfellum. Nú, þegar Björn Bjarnason leggur til að komið verði á 240 manna varaliði lögreglunnar, er tillagan sem slík ekki það sem fer fyrir brjóstið á fólki, heldur hver leggur tillöguna fram. Ég man ekki til þess að kvartað hafi verið yfir þörfinni á björgunarsveitum til aðstoðar lögreglu í þeim tilfellum sem áður er getið. Í því ljósi er tillaga Björns eðlileg og þörf. Hann hefur hinsvegar áður komið með margar tillögur um herlið og leyniþjónustu og allskyns hernaðarbrölt og því verður að skoða þessa tillögu hans í því ljósi.

Því er eðlilegt að Björn Bjarnason veki ákveðinn ugg í brjósti fólks í hvert sinn sem hann kemur fram með tillögur um eflingu lögreglu og svokallaðra öryggisþátta, jafnvel í þeim tilfellum sem hann er einungis að gera góða hluti eins og þegar hann gekk fram fyrir skjöldu við eflingu þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar.

Er ekki bara kominn tími til að fá nýjan dómsmálaráðherra, einhvern sem fólk ber traust til?


0 ummæli:







Skrifa ummæli