föstudagur, mars 09, 2007

9. mars 2007 - Verðandi strætisvagnafarþegar!

Eins og mínir kæru lesendur ættu að vita eftir lestur bloggsins mín, ferðast ég um á gömlum vinstrigrænum eðalvagni og hefi ekki séð ástæðu til að ferðast með strætisvögnum. Hinsvegar hafa hinar áhrifaríku sögur af ævintýrastrætisvagnaferðum Gurríar orðið til þess að mig var farið að langa til að prófa eina ferð eða fleiri. Ég ákvað því að fara einu sinni með strætisvagni í vinnuna og upplifa ævintýrið sjálf

Ég gekk af stað að heiman einn morguninn, í úlpu með trefil og vettlinga og í góðum og vatnsþéttum stígvélum og arkaði út á horn. Það rigndi og það var rok. Vinstrigræni eðalvagninn minn horfði á eftir mér um leið og ég óð framhjá. Hvað er nú hlaupið í kerlinguna? Fólk sem var að leggja af stað í vinnuna horfði á mig samúðaraugun, á hún ekki fyrir bensíni á bílinn. Frá horninu gekk ég áfram yfir berangurinn í stefnu að næstu strætisvagnabiðstöð uns ég kom að hringtorgi þar sem ég þurfti að fara yfir aðalbraut. Mér tókst með naumindum að komast yfir án þess að vera keyrð niður og komst við illan leik að strætisvagnaskýlinu og beið þar nokkuð hnípin um stund í þrúgandi þögn ásamt fleiri samanbitnum væntanlegum strætisvagnafarþegum.

Fyrir framan strætisvagnaskýlið hafði gatnamálastjóri látið staðsetja stóran drullupoll. Eftir allnokkra stund nálgaðist strætisvagninn nokkuð á eftir áætlun og ók hratt. Hann stefndi beint á drullupollinn og snarbremsaði svo drullupollurinn tæmdist yfir væntanlega strætisvagnafarþega. Meinfýslega glottandi strætisvagnsstjórinn opnaði nú dyrnar.

Hinir væntanlegu farþegar tíndust inn í vagninn einn af öðrum og ég tæmdi vasana af smámynt og reyndist eiga rétt nógu mikið fyrir einni ferð með strætisvagni aðra leiðina. Síðan hringdi ég bjöllunni, flýtti mér afturí, út um dyrnar að aftan og gekk loks þessa fáu metra sem eftir voru í vinnuna, rennblaut, köld, skítug eftir drullupollinn góða og rétt náði að komast í vinnuna í tæka tíð áður en vinnutiminn hófst. Eins og gefur að skilja, var þetta mjög stutt ferð með strætisvagni!

Hinir aumkvunarlegu væntanlegt strætisvagnafarþegar eiga alla mína samúð skilið!


0 ummæli:







Skrifa ummæli