fimmtudagur, mars 29, 2007

29. mars 2007 – Íþróttapistill dagsins



Á miðvikudagskvöldið töpuðu Íslendingar óvænt fyrir Spáni í boltasparki þrátt fyrir þá staðreynd að jafnmargir voru í hvoru liði, en aðstæður allar mjög hagstæðar Íslendingum. Íslendingar voru á heimavelli, því sá Spánverji hlýtur að vera eitthvað klikk sem fer til Mallorca í sumarfríinu. Hinsvegar eru fáir Íslendingar sem hafa komist hjá því að flatmaga á sólarströnd á Mallorca á undanförnum áratugum. Því verður völlurinn að teljast sem varaheimavöllur íslenska liðsins. Þá var veðurfarið mjög hagstætt íslenska liðinu, rigning og rok, alveg eins og heima. Semsagt, kjöraðstæður á vellinum.

Mig grunar reyndar að skýringin á tapinu sé sú að fyrirliði íslenska landsliðsins sé á mála hjá Spánverjum. Það þarf því að skipta um fyrirliða fyrir næsta leik!

-----oOo-----

Eins og Íslendingar tóku eftir var fátt um frásagnir af landsleiknum í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna. Sjálf er ég ekki með áskrift að Stöð 2 og sá því ekki leikinn, né heyrði. Það gerir að sjálfsögðu ekkert til því hingað til hefi ég bara fylgst með sparaksturskeppnum með Michael Scumacher í fararbroddi. Nú er hann hættur og ég eins og vængbrotinn fugl. Það gerir kannski ekki neitt til því mér skilst að Stöð 2 sé líka að hirða sparaksturinn af sjónvarpi allra landsmanna. Það er því óþarfi að finna sér nýtt uppáhald þar til sjónvarpið fær sýningarréttinn á ný.


0 ummæli:







Skrifa ummæli