miðvikudagur, mars 21, 2007

21. mars 2007 - II - Áfram Ísland!

Það var illa komið fyrir íslenska landsliðinu í fótbolta á dögunum þegar í ljós kom að einn leikmaður landsliðsins var meiddur og gat ekki spilað með í leik gegn Spáni. Ekki bætti heldur úr skák þegar kom í ljós að eiginkona annars leikmanns væri ólétt og ætti von á sér á hverri stundu. Hið síðarnefnda virðist hafa komið verulega á óvart þótt venjulega sé vitað um slík gleðitíðindi með margra mánaða fyrirvara.

Voru nú góð ráð dýr, því miðað við hamaganginn virtist sem aflýsa þyrfti leiknum vegna fæðar í leikmannahópi. Á endanum tókst þó að bjarga landsliðinu fyrir horn með því að tveir leikmenn voru fengnir að láni frá Danmörku og spila því leikinn gegn Spáni. Með þessari viðbót tókst að fullmanna íslenska landsliðið og munu því ellefu Íslendingar mæta ellefu Spánverjum í sólinni á Mallorca á miðvikudag eftir viku. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að Íslandi bursti Spán með mörgum mörkum gegn engu. Ekki er það til að minnka sigurvonirnar að bæði liðin byrja án forgjafar og standa því jöfn að vígi í upphafi leiks.

Það er aðeins eitt sem ég hefi áhyggjur af. Mér skilst að einn Íslendingurinn sé á mála hjá einhverju spænsku félagi og gæti því verið hlutdrægur í leiknum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli