þriðjudagur, mars 20, 2007

20. mars 2007 - Írak

Það eru komin fjögur ár síðan Bandaríkin réðust inn í Írak og það eru komin fjögur ár síðan hópur fólks safnaðist saman fyrir framan stjórnarráðið og mótmælti stuðningi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar við stríðið í Írak sem þeir tilkynntu fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Enn hafa þeir ekki beðist afsökunar á gjörðum sínum.

Framsóknarflokkurinn er hverfandi, kannski vegna stuðnings Halldórs Ásgrímssonar við stríðið í Írak. Það væri kannski ráð nú þegar Halldór Ásgrímsson er farinn úr landi, að biðja íslensku þjóðina afsökunar á gerræðislegum og ólöglegum stuðningi Halldórs og Davíðs við stríðið?

Á þessum fjórum árum hafa tugþúsundir eða hundruð þúsunda, kannski allt að milljón Íraka fallið, algjörlega að nauðsynjalausu. Enginn veit hversu margir þeir eru, en allralægstu tölur nefna 60 þúsundir. Á sama tíma hafa Bandaríkjamenn misst minnst 3218 menn og konur í stríðinu, þar af 3079 síðan George Dobbljú Bush lýsti því yfir að stríðinu væri lokið með bandarískum sigri. Þá hafa aðrar innrásarþjóðir misst 257 hermenn á sama tíma. Auk þeirra eru sárir samkvæmt opinberum tölum taldir vera 24042, en talið er að fjöldi særðra sé verulega hærri, jafnvel allt að 100 þúsund.

Mér auðnaðist að taka þátt í mótmælum gegn stríði í Írak árið 2003 og er stolt af því. Ég er hinsvegar ekki eins stolt yfir því að hafa ekkert gert á mánudagskvöldið til að sýna andúð mína á stríðsrekstrinum. Ég var að sinna eiginhagsmunabaráttunni, var á námskeiði á mánudagskvöldið í stað þess að vera á vaktinni, en hugur minn var að sjálfsögðu hjá því hugrakka fólki sem vildi og þorði mótmæla stríðinu, stóðu við hugsanir sínar og mótmæltu.

Væri það kannski gott kosningabragð fyrir Framsókn að snúa við blaðinu og biðjast afsökunar á stríðsbröltinu?

-----oOo-----

Svo fær Pétur bróðir hamingjuóskir með að vera ekki lengur 64!


0 ummæli:







Skrifa ummæli