fimmtudagur, mars 15, 2007

15. mars 2007 - II - Gáfað framtalsforrit

Ég ákvað að klára skattframtalið mitt í gær og fór inn á skattur punktur is og náði í framtalið. Eitthvað vantaði upp á að framtalið væri fullkomið af hálfu þeirra sem þurfa að skila inn gögnum um eignir, tekjur og skuldir og því þurfti ég enn einu sinni að rifja drengskaparheitið upp með mér um leið og ég bætti við örlitlum tekjum sem gleymst hafði að senda launaseðil fyrir.

Verra þótti mér þó er kom að skuldunum. Ég sótti upplýsingarnar í heimabankann minn og sendi inn á framtalið, en þá harðneitaði hið gáfaða framtal að taka við því óbreyttu. Þegar betur var að gáð, höfðu tölurnar frá bankanum lent í skökkum reit og því þurfti ég að handfæra upphæðirnar svo framtalsforritið yrði ánægt. Það var kannski eins gott því annars hefði ég glatað vaxtabótunum!


0 ummæli:







Skrifa ummæli