þriðjudagur, mars 27, 2007

27. mars 2007 - Þjóðsöngurinn

Þessa dagana fyllist hluti íslensku þjóðarinnar heilögum rembingi vegna notkunar Spaugstofunnar á íslenska þjóðsöngnum. Ekki ég. Ég dáðist að frábærum flutningi þeirra á þjóðsöngnum með nýjum texta. Kannski er ég ekki nógu mikil þjóðremba.

Það gilda mjög ströng lög um þjóðsönginn og þjóðfánann. Þó hefur Árni Johnsen útsett þjóðsönginn á þann hátt að telja verður tvímælis, hann var leikinn alltof hratt á handboltamóti í janúar. Þá hefur honum verið útjaskað við ýmsa viðburði án þess að nokkur hafi séð ástæðu til andmæla. Svipað er með íslenska fánann. Um daginn var hann notaður í bikini. Þá má ekki gleyma því er Jakob Frímann Magnússon væntanlegur frambjóðandi kom fram á tónleikum í Englandi í lörfum sem líktu eftir íslenska fánanum.

Á sama tíma sér enginn neitt athugavert þótt Tommi og Jenni kyrji franska þjóðsönginn eins og hverja aðra drykkjuvísu í teiknimyndum og sjálfir hafa Íslendingar gaman af að syngja þann enska sem íslenskan ættjarðarsöng. Er ekki komin upp einhver tvöfeldni í móralinn?

Úr því við megum syngja Eldgamla Ísafold við enska þjóðsönginn, mega Bretar þá ekki syngja þann íslenska með sínum texta?

-----oOo-----

Ef fólki finnst pistlarnir mínir snubbóttir á mánudagskvöldum, er það af eðlilegum ástæðum. Þá er ég á Dale Carnegie námskeiði þar sem ég hefi verið síðustu átta mánudagskvöld. Ég er bundin trúnaði af því sem fram fer þessi kvöld, en þau eru bæði skemmtileg og erfið. Oftast er ég dauðuppgefin þegar heim er komið og langar helst til að skríða upp í rúm og fara að sofa án þess að skrifa neitt.

Strax á þriðjudögum finn ég hvernig ég er öll endurnærð á sálinni og get notað orkuna í betri pistla en áður var.


0 ummæli:







Skrifa ummæli