sunnudagur, mars 11, 2007

11. mars 2007 - Stokkar og göng


Ég hefi löngum verið hrifin af jarðgöngum til að stytta leiðir á milli landshluta og héraða og gera ferðamátann öruggari og þægilegri. Hvalfjarðargöng, Vestfjarðagöng og Fáskrúðsfjarðargöng hafa öll sannað gildi sitt, stytt vegalengdir og gjörbreytt og bætt möguleika fólks til lífsbjargar. Nú eru háværar kröfur um ótal fleiri göng og skyndilega virðist nóg af peningum til að bora í gegnum hvert fjallið á fætur öðru, undir firði og hafsbotna til Vestmannaeyja og víðar.

Um daginn fékk einhver þá hugmynd að vegstokkar væru allra meina bót og er það af sem áður var þegar krafa Miðborgarsamtakanna í Reykjavík um að leggja Hringbrautina í stokk var algjörlega hunsuð af yfirvöldum. Nú er til nóg af peningum svona rétt fyrir kosningar og borgarstjórn Reykjavíkur vill leggja bæði Miklubraut og Kringlumýrarbraut í stokk í harðri samkeppni við stokkagerð Kópavogs og Garðabæjar.

Úr því allt í einu er til svona mikið af peningum, ætla ég að leggja fram eftirfarandi tillögu um jarðgangagerð:

Boruð verði göng frá Ártúnsbrekkunni og stystu leið að Hofsjökli. Þar verði borað út risastórt neðanjarðar hringtorg. Frá hringtorginu verði svo boruð göng í allar áttir, ein til Vestmannaeyja, önnur til Akureyrar, þriðju til Ísafjarðar, fjórðu til Egilsstaða, auk þess sem endalaust verður hægt að bæta við göngum í allar áttir og til allra byggðakjarna eftir því sem þurfa þykir. Síðan verði gerður ytri hringur sem tengir þéttbýlisstaðina saman neðanjarðar, helst svo að bílarnir þurfi aldrei að koma upp á yfirborðið og því hægt að safna útblæstri bílanna í síum í göngunum. Þar með verður hægt að banna snjódekk og aldrei framar þarf að fara út að moka snjó framar, enda verður þá öll innanbæjarumferð komin í stokk.

Frá miðju hringtorginu undir Hofsjökli verði boruð ein lóðrétt göng upp á yfirborð Hofsjökuls. Þar verði byggt eitt stykki risastórt samkomu- og safnahús á hjólum þar sem má koma fyrir öllum helstu þjóðarsöfnum og leikhúsum þjóðarinnar við eitt stórt hringtorg, þar á meðal Alþingi og ríkisstjórn, en efst uppi verði svo veitingahús sem snýst í hringi með útsýni yfir allt landið og miðin.

Mér finnst þessi hugmynd svo sniðug að ég kem henni hér með á framfæri. Það er bara eitt vandamál sem ég er ekki enn búin að leysa. Hver vill keyra alla leið frá Reykjavík til Akureyrar eða Egilsstaða í dimmum göngum alla leið?

-----oOo-----

Af íþróttum helgarinnar er það helst að engin slagsmál voru í ensku kvenfélagsdeildinni er hetjurnar í Halifaxhreppi unnu Útgönguborg með tveimur mörkum gegn einu og virðast nú loksins vera að komast upp úr botnbaráttunni og eygja því möguleika á að spila áfram í kvenfélagsdeildinni í haust. Ekki lítur eins vel út fyrir köppunum í Sameingu Mannshestahrepps (United of Manchester - http://www.fc-utd.co.uk/ )sem unnu eitthvert Squires Gate í gær og eiga því erfitt með komast hjá því að spila í Miðhálendisdeildinni í haust.

-----oOo-----

Loks fá þeir Ágúst Ólafur Ágústsson og Osama bin Laden hamingjuóskir með stórafmælin sín á laugardag. Eru þeir báðir vel að afmælisfagnaðinum komnir, ekki síst Osama sem er mest hataði maður í heimi og eftir ótal tilraunir valdamestu þjóðar heims til að koma honum fyrir kattarnef!


0 ummæli:







Skrifa ummæli