föstudagur, febrúar 16, 2007

16. febrúar 2007 - Íslenskur transgenderhópur

Lítill hópur transgenderfólks og stuðningsfólks þess hittist í húsnæði Samtakanna 78 á fimmtudagskvöldið og skipulagði sig til framtíðarstarfa í baráttu sinni fyrir réttindamálum transgenderfólks á Íslandi. Stofnun þessa hóps markar tímamót, ekki aðeins í baráttu transgenderfólks fyrir réttindum sínum, heldur eykst stefnuskrá Samtakanna 78 til þess að ná yfir mun stærri hóp fólks en áður var.

Í mörg ár áttu Samtökin 78 erfitt uppdráttar, meðal annars vegna andstöðu almennings. Með þrotlausri baráttu samtakanna, tókst smám saman að vinna álit almennings á band þeirra og í framhaldinu tókst að lögleiða réttindi samkynhneigðra. Á sama tíma skeði fátt í baráttumálum transgender fólks. Lengi leið mér eins og ég væri ein í heiminum og þetta fór ekki að breytast fyrr en með nýrri öld.

Í dag er hópur fólks á Íslandi sem hefur lokið aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni, annar hópur sem vinnur í sama ferli auk allstórs hóps fólks sem sem er sáttur við að lifa í einu líkamlegu kyni, en öðru kyngervi. Með því að Samtökin 78 undir stjórn Hrafnhildar Gunnarsdóttur tók málefni transgender einstaklinga upp á arma sína, sjáum við fram á betri tíma og bætt réttindi okkar í íslenskum veruleika sem enn er fjarri óskum okkar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli