föstudagur, febrúar 02, 2007

3. febrúar 2007 - Álver á Íslandi - Umhverfisvernd á heimsvísu.

Mig langar til að fjalla aðeins um hinn hataða málm ál sem virðist bannfærður í stjórnmálaumræðunni á Íslandi.

Þessi málmur er til margra hluta nytsamlegur, hann leiðir vel, hann er léttur eða aðeins þriðjungur af eðlisþyngd stáls. Hann er sterkur og þolinn og er notaður allt í kringum okkur. Sagt er að í Boeing 747 risaþotu séu um 75 tonn af áli. Ef stál væri notað þar í stað áls, kæmist flugvélin trúlega aldrei á loft og jafnvel þótt finna mætti flugvöll sem væri nógu langur til að hún kæmist í loftið, þyrfti hún að lenda aftur á næsta flugvelli til að taka eldsneyti. Með öðrum orðum. Notkun áls í farartæki hefur gert það að verkum að þau brenna miklu minna eldsneyti en annars væri. Smábíll þeirrar gerðar sem Ómar Ragnarsson dreymir um, yrði á annað tonn að þyngd ef ekki væri vegna álsins í honum. Sömu sögu má segja um flugvélina hans. Hún myndi eyða óhemju eldsneyti í flugtaki ef ekki væri vegna álsins í Frúnni.

Þægindin við meðhöndlun efnisins hefur gert að verkum að útbreiðslan eykst stöðugt. Jafnvel þótt komnir séu nýir og léttari málmar á markaðinn eins og magnesíum eru þeir enn ekki samkeppnishæfir við ál í verði. Því mun ál verða ráðandi á markaðnum í mörg ár í viðbót auk þess sem einnig þarf dýrar og orkufrekar framleiðsluaðferðir við magnesíumvinnslu.

Það er álinu að miklu leyti að þakka að enn er ekki orðin olíuþurrð í heiminum.

Á Íslandi hefur tekist að skapa mjög neikvætt andrúmsloft gagnvart áliðnaði og menn sem kalla sig umhverfisverndarsinna ganga á torg og mótmæla þessum ágæta léttmálmi á sama tíma og heimurinn krefst meira áls. Það er ljóst að ef álið verður ekki framleitt á Íslandi, verður það framleitt annars staðar, hugsanlega með rafmagni sem framleitt er með olíu eða kolum með verulega auknum gróðurhúsaáhrifum.

Ég held að það sé kominn tími til að snúa umræðunni við og fagna framleiðslu léttmálma á Íslandi. Það er svo önnur saga að mikið af notuðu áli endar á haugunum í stað þess að fara í endurvinnslu og mætti gjarnan bæta við einu álveri til að endurvinna gamalt ál.

Og hananú!

-----oOo-----

Mig langar til að lýsa yfir aðdáaun minni á þeim kjarki sem Bárður Ragnar Jónsson þýðandi sýndi í Kastljósþætti föstudagsins, er hann lýsti viðurgjörningi þeim sem drengjunum var búinn vestur á upptökuheimilinu í Breiðuvík á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Það hefur greinilega víðar verið pottur brotinn en í Byrginu.


0 ummæli:Skrifa ummæli