þriðjudagur, febrúar 06, 2007

6. febrúar 2007 - Af drengjum á upptökuheimili

Rétt eins og aðrir Íslendingar setur mig hljóða við frásagnir drengjanna sem dvöldu í Breiðuvík í Rauðasandshreppi á sjöunda áratug síðustu aldar. Ekki er það síst fyrir þá sök að ég þekkti marga þessa krakka á uppvaxtarárum mínum og missti yfirleitt sjónar á þeim er þeir voru sendir í sína illræmdu vinnuþrælkun vestur í Breiðuvík, drengir eins og Bárður, Víglundur og Lárus (Lalli Johns).

Ég fór að leita í gömlum Moggum að einhverju um þetta heimili fyrir vestan og rakst þá eftirfarandi pistil úr Rauðasandshreppi:

Vistheimilið Breiðuvík. Þaðan er allt gott að frétta. Erfiðleikar voru á að fá nægjanlegt starfsfólk. Forstjóranum, Hallgrími Sveinssyni, datt þá í hug að gera þá tilraun yfir veturinn,að láta drengina vinna öll störf við húshald, nema þjónustubrögð. Hann lét því það starfsfólk fara, sem fyrir var, nema bústjórann Njörð Jónsson, ungan einhleypan Reykvíking. Hefur þetta gengið mjög vel, drengirnir ánægðir og mæta vel því trausti sem þeim er sýnt. (Morgunblaðið 7. janúar 1964, bls 17).

Þegar þetta er lesið, er ljóst að nágrannar heimilisins hafa verið gjörsamlega grunlausir um þá meðferð sem yngri krakkarnir urðu fyrir. Þá er ljóst að margir þessir drengir áttu við mjög erfitt skapferli og geðsveiflur að eiga og áttu síst af öllu að lenda í þrælkunarbúðum eins í Breiðuvík, fremur á stofnun á borð við BUGL ef ekki hjá foreldrum sínum (mæðrum).

Sá stjórnandinn sem helst er nefndur af drengjunum, er Þórhallur Hálfdánarson (1916-2001) skipstjóri og síðar framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar sjóslysa. Það er erfitt fyrir mig að leggja mat á skepnuskap þann sem honum er borið á brýn þegar haft er í huga að móðurfólk hans og föðurfólk mitt voru nátengd fjölskylduböndum. Þá hlaut hann mikið lof fyrir brautryðjendastarf sitt í slysavarnarmálum sjómanna og fyrir bragðið enn erfiðara að dæma hann fyrir syndir sínar löngu eftir dauða sinn.

Engu að síður verður að gera þá kröfu til allra sem áttu hlut að máli og enn eru lifandi, að fá eins mikið og hægt er upp á yfirborðið og þannig reyna að bæta fyrir þau afbrot sem þessir drengir urðu fyrir af hálfu samfélagsins á sínum tíma, en umfram allt, koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.


0 ummæli:







Skrifa ummæli