fimmtudagur, október 11, 2007

11. október 2007 - Biluð stefnuljós?

Ég þurfti að skreppa vestur fyrir Elliðaár í gær og lét mig dreyma um allar milljónirnar sem ég fengi kannski ef allt gengi upp og ég græddi jafnmikið og sumir ímynda sér að væntanleg bréf mín í REI muni hækka á næstunni. Renndi þá þessi líka glæsibifreið framúr mér hægra megin (mín mistök að vera ekki lengst til hægri til að tefja fyrir aðreininni frá hægri).

Þetta var nýlegur og flottur Bimmi með númerinu MP-9xx sem skellti sér framfyrir mig og síðan yfir á akreinina lengst til vinstri, fór síðan aftur yfir á mína akrein svo mér mætti öðlast enn frekari sýn á dýrðina. Hann fór framfyrir hægfara bíl á vinstri akrein og fór svo aftur yfir á vinstri akrein en virðist svo hafa skipt um skoðun því hann fór skyndilega af vinstri akrein og yfir allar fjórar akreinarnar og inn á beygjuakreinina að Skeiðarvogi og hvarf sjónum mínum.

Þetta var vissulega glæsileg sýning á Bimmanum, en þó þótti mér eitt dálítið skrýtið. Stefnuljósin á þessu glæsilega farartæki voru biluð, allavega sáust aldrei nein stefnuljós.

Af hverju láta sumir eigendur dýrra bíla eins Benz og BMW aldrei gera við stefnuljósin á bílunum sínum þegar þau bila?


0 ummæli:







Skrifa ummæli