fimmtudagur, október 25, 2007

26. október 2007 - Hrafnhildur ofurkisa


Það munaði litlu að ég kæmi of seint til vinnu á fimmtudagsmorguninn. Ekki var það vegna mikillar umferðar né heldur vegna þess að ég hefði sofið yfir mig. Skýringin var Hrafnhildur ofurkisa.

Þegar ég fer á morgunvakt, fylgir Hrafnhildur mér venjulega niður stigana og fer út í garð, en ég fer út um framdyrnar og rölti þennan spotta í vinnuna. Á fimmtudagsmorguninn fylgdi Hrafnhildur mér niður að venju, en harðneitaði að fara út í garð en vildi labba með mér að framdyrum blokkarinnar. Slagviðrið stóð beint á dyrnar og köttinn svo hún sneri sér snarlega við og inn aftur. Við röltum að bakdyrunum sem snúa út í garð og þar var sama veðrið. Hrafnhildur fór út á tröppur og sannfærðist um að veðrið væri einnig vont þeim megin, hætti við að fara út og ætlaði að hreiðra um sig undir stiganum í stigaganginum. Það er ekki vinsæll staður fyrir ungar kisur að mati tvífættra íbúa blokkarinnar. Því þurfti ég að narra hana undan stiganum og fara með hana upp aftur og inn í íbúðina áður en ég hélt til vinnu.

Ég var með bullandi samvisku á vaktinni, vitandi af Hrafnhildi ofurkisu innilokaðri heima ásamt Tárhildi litlu systur sinni. Mitt fyrsta verk er ég kom heim, var því að sleppa báðum kisunum út í garð.

Skjannahvítur fress úr efra Breiðholti að nafni Tómas er nýlega fluttur inn í íbúðina á jarðhæð. Algjör Breiðhyltingur. (Láttu mig þekkja það. Ég flutti í Árbæinn úr efra Breiðholti þaðan sem búið að banna allar kisur) Tómas þykir mjög árásargjarn og er duglegur við að hrella hana Hrafnhildi mína hvenær sem hann sér færi á slíku, en hún er algjör andstæða við hvíta fressið, fínleg, hógvær, svört eins og nóttin og vægir að hætti þess sem vitið hefur.

Áður en ég fór að hátta og skrifa þennan litla pistil fyrir svefninn fór ég út í garð í húsvarðarleik, þ.e. ég rölti út í garð og hristi Halifaxhrepps-lyklakippuna mína af ákafa, en það er merki til Hrafnhildar að nú eigi hún að koma inn að sofa. Það leið ekki á löngu uns hún kom mjálmandi að hlið mér til að fylgja mér heim. Áður en við komumst alla leið að útidyrunum stökk hvítt óhræsi út úr runna og beint á hana Hrafnhildi mína. Hún forðaði sér undan og hófst þessi líka eltingarleikur um allan garðinn uns hvíta ófétið kom til baka til mín blýsperrtur af ánægju yfir afrekum sínum að hafa hrakið Hrafnhildi á flótta. Hófst þá nýr eltingarleikur þar sem ég hljóp hvæsandi á eftir kettinum Tómasi rétt eins og Akab skipstjóri á eftir Moby Dick. Loksins slapp hann á bakvið grindverk og ég hélt heim og Hrafnhildur ofurkisa á eftir mér með rófuna beint upp í loftið.

Er það nema von að nágrannarnir haldi sitthvað misjafnt um mig?


0 ummæli:Skrifa ummæli