fimmtudagur, október 11, 2007

11. október 2007 - II - Hver felldi hvern?


Þá er meirihluti Sjálfstæðisflokksins fallinn og Bingi kominn heim. Ég fagna nýjum borgarstjóra sem ég hefi einungis kynnst af góðu einu, en um leið horfi ég á eftir gamla góða Villa með söknuði. Hann hafði staðið sig ágætlega að mörgu leyti uns hann var tekinn og hirtaður af sínum eigin flokkssystkinum. Þá tel ég nauðsynlegt að hrist sé upp í valdastöðunum reglulega til að koma í veg fyrir spillingu og einhverjar af áherslum Sjálfstæðisflokksins voru þannig að ég gat auðveldlega samþykkt þær þótt ég væri ekki á línu Sjálfstæðisflokksins að öðru leyti.

Um leið er ég fylgjandi þeim samruna útrásarfyrirtækja sem Vilhjálmur studdi í upphafi en snérist öndverður gegn eftir hirtingu Gísla og félaga sem hálfpartinn lítillækkuðu hann með kröfum sínum um að Orkuveitan seldi hluta sinn í Reykjavík Energy Invest. Það má segja að með þessu hafi Sjálfstæðismenn sjálfir stuðlað að falli borgastjórnarmeirihlutans í Reykjavík og sýnt þar með sitt rétta andlit.

Ég ætla að bíða með stórar yfirlýsingar um nýja borgarstjórnarmeirihlutann þar til ég sé málefnasamninginn, en vil samt óska nýja borgarstjórnarmeirihlutanum til hamingju með samstarfið og þá sérstaklega nýja borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni


0 ummæli:Skrifa ummæli