laugardagur, október 20, 2007

20. október 2007 - Baráttan í Dublin


Írland er eitt hið afturhaldssamasta land Evrópu þegar kemur að réttindum transgender fólks. Það er eitt þriggja landa Evrópu þar sem aðgerðir til leiðréttingar á kyni hafa verið bannaðar fram að þessu. Hin tvö eru Albanía og Andorra.

Á föstudagskvöldið fékk ég ánægjulegt bréf frá Philippu, írskri transgender vinkonu minni (sjá mynd) þar sem hún segir glænýjar fréttir frá Dublin.

Dr. Lydia Foy fór í gegnum aðgerð til leiðréttingar á kyni árið 1992. Henni var hinsvegar neitað um breytingu á persónuskrám sínum hjá hinu opinbera þar sem hún var áfram skráð sem karl. Hún fór í mál við írska ríkið og tapaði. Hún hélt áfram baráttu sinni og nú hefur verið dæmt í máli hennar fyrir æðri dómstólum sem segja írsk lög brjóta í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta þýðir að írsk yfirvöld verða að breyta lögunum til hagsbóta fyrir transgender einstaklinga.

Nú bíðum við þess að írsk yfirvöld aflétti fáránlegu banni sínu gegn aðgerðum til leiðréttingar á kyni svo frænkur okkar og frændur þurfi ekki lengur að fara til Austur-Asíu til að fá aðgerðina framkvæmda.


0 ummæli:Skrifa ummæli