þriðjudagur, október 30, 2007

30. október 2007 - Allt á ensku!

Þegar ég bjó í Svíþjóð og kom til Íslands og reyndi að finna eitthvað sem minnti á upprunann og móðurjörðina gat ég valið úr miklu úrvali ýmissa hluta í ferðamannaverslunum. Þar voru bolir, merki ýmiskonar og kort sem báru með sér að þau ættu uppruna á Íslandi. Vandamálið var bara eitt. Allt þetta drasl var merkt á ensku.

Það fannst ekkert á sænsku eða þýsku eða frönsku eða japönsku, þó ekki væri nema bara á gamla góða ylhýra. Það var bara til á ensku. Allt var þetta merkt Æslandi (skrifað Iceland), ekkert var merkt Island, eða Islande, eða Ijsland. Að sjálfsögðu var ekkert merkt með heitinu Ísland.

Ég átti erindi í ferðavöruverslun í Reykjavík í sumar ásamt sænsku vinafólki mínu. Það var sama sagan og fyrrum. Allt sem merkt var Íslandi var á ensku. Ekkert á íslensku. Nú er mestöll tónlistin sem sögð er íslensk flutt á ensku. Svo ætlast sumir til að útlendingar sem búa á Íslandi læri íslensku.

Til hvers? Hvar er hvatningin til þess að læra íslensku? Ekki er hún í ferðavöruverslunum. Svo mikið er víst. Ekki heldur í tónlistinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli