föstudagur, október 12, 2007

13. október 2007 - Enid Blyton


Ég var að fylgjast með spurningaþættinum hvar kaupstaðirnir keppa í sjónvarpinu á föstudagskvöldum þegar fram kom spurning um nafnið á hundinum Tomma í Fimm-bókunum. Einhver sagðist bara muna eftir Georg sem hét í reynd Georgína en vildi alltaf vera strákur.

Þetta var auðvitað algjör fjarstæða þegar ég var að alast upp, því hvernig datt nokkurri heilvita stelpu til hugar að vilja vera strákur. Slíkt var eins fjarri mér og hugsast gat, að stelpa sem var svo heppin að vera fædd sem stelpa vildi vera strákur. En svo þroskaðist ég og komst svo smám saman að því að það var fleira undir sólinni en ég ein og mínar tilfinningar, jafnvel fólk með andstæðar tilfinningar sem þó átti mikið sameiginlegt með mér í baráttunni fyrir betra lífi.

Einhverju sinni þegar ég bjó í Svíþjóð, rakst ég á afar fróðlega grein um Enid Blyton í Dagens nyheter, en þar var því haldið fram fullum fetum, að Enid Blyton hefði í reynd verið að skrifa um sjálfa sig er hún lýsti Georg/Georgínu svona skemmtilega, að Enid Blyton sjálf hafi iðulega klætt sig sem strák er hún var að alast upp á fyrsta og öðrum áratug tuttugustu aldar, hafi gengið um snöggklippt og kynnt sig sem Richard.


Þegar Enid komst á fullorðinsár hafi hún verið skikkuð til að hegða sér sem konu sæmdi enda transgender verið óþekkt á þeim árum. Því fór sem fór að hún gerðist kennari og giftist og eignaðist tvær dætur. Í greininni sem ég las var það staðhæft eftir annarri dóttur Enid Blyton að hún hefði ávallt verið tilfinningaköld og barnauppeldi hafi ekki verið hennar sterka hlið.

Ef satt er, má fullyrða að andi Enid Blyton lifi enn með okkur í anda sögupersónunnar George/Georgínu í Fimm-bókunum. Þar sem ekkert er minnst á þennan þátt í fari Enid Blyton á Wikipedia, væri fróðlegt að vita hvort fleira fólk kannist við þennan hluta í ævi skáldkonunnar ensku sem heillaði íslensk börn um þriggja áratuga skeið frá og með sjötta áratugnum til áttunda áratugar síðustu aldar og kannski enn lengur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli