þriðjudagur, desember 12, 2006

12. desember 2006 – Gamall Moggi


Orð Ástu Möller alþingismanns um menningu Íslendinga í "Íslandi í dag" urðu til þess á mánudagskvöldið að ég fór að fletta gömlum Mogga frá 1936 í tilraunum mínum til að finna dæmi um hina löngu bindindismenningu íslensku þjóðarinnar. Það leið ekki á löngu uns ég var komin á kaf í gamlar sögur sem nú endurtaka sig á síðum blaðanna þessa dagana.

Um mannvonsku ritstjóra Ekstrabladet gegn íslensku þjóðinni má lesa, ekki bara á síðum Fréttablaðsins síðustu mánuði, heldur og á síðum Morgunblaðsins og þá sérstaklega 5. júlí 1936 bls 3 auk sérstaks flugublaðs daginn áður sem dreift var um bæinn. Ég ætlaði mér að mynda síðuna, en fórst það illa úr hendi og læt mér því nægja að birta slóðina að greininni:

http://timarit.is/mbl/?issueID=407255&pageSelected=2

Valgerður Sverrisdóttir hefur verið að bera víurnar í dönsku ríkisstjórnina um samstarf í öryggismálum. Slíkt hefur einnig verið gert áður. Danir sáu um varnarmál Íslands í mörg hundruð ár og fórst það illa úr hendi. Voru þeir stundum duglegastir við að beina spjótum sínum að Íslendingum sjálfum sbr. Kópavogsfundinn 1662. Þá voru þeir hvergi nálægir á tímum Tyrkjaráns, þegar Jörundur tók hér völdin árið 1809 né þegar baráttan hófst að gagni um landhelgina um aldamótin 1900. Gengu þá dönsku varðskipin undir heitinu heimalningarnir þar sem þau lágu mest í höfn þegar enskir togarar voru að veiðum upp undir landssteinum.

Árið 1936 vildu ónefndir Framsóknarmenn fara í samstarf við Dani um gæslu landhelginnar og má lesa um það hér:

http://timarit.is/mbl/?issueID=407255&pageSelected=2

Ætli faxtæki með fyrirfram ákveðnum texta um uppgjöf, sömu gerðar og Mogens Glistrup lagði til að komið yrði fyrir á borðum dönsku ríkisstjórnarinnar, sé ekki nægilegt sem helsta landvarnartækið á Íslandi komi til innrásar?


Árið 1936 kom hópur þýskra ferðamanna til Íslands með þýska skemmtiferðaskipinu Milwaukee. Ferðamennirnir sendu frá sér kveðju til íslensku þjóðarinnar, þar sem einn ferðamannanna í hópnum, Gunnar Gunnarsson var hylltur. Þessa kveðju má lesa hér:

http://timarit.is/mbl/?issueID=407255&pageSelected=2

Ekki voru allir Íslendingar jafnhrifnir af þessum þýsku ferðamönnum, því einhverjir máluðu slagorð gegn nasistum utan á annan hafnargarðinn, eða eins og segir á bls 6 í þessu sama Morgunblaði: “Gestir Íslendinga svívirtir af kommúnistabullum”

Í fréttinni segir m.a.:
“Vjer vitum að hinn siðspilti þorparalýður sem sver sig undir blóðmerki kommúnismans svífst einskis til að svívirða foringja Þýskalands. Þótt lítilsigldri ríkisstjórn hafi ekki tekist að hefta þennan óaldarlýð, þá verður þó að krefjast þess að þeir geri ekki þjóðinni skömm með því að svívirða gesti vora.”

Ætli við þurfum nokkuð að efast um afstöðu Morgunblaðsins til heimsmálanna á þessum tíma?
Þess má geta að á þessum tíma sat hér ríkisstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks undir forystu Hermanns Jónassonar.
Það verður að smella á myndirnar til að sjá þær stærri.

-----oOo-----

Við getum alltjent fagnað innrás fyrsta jólasveinsins í nótt. Velkominn Stekkjarstaur :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli