laugardagur, desember 02, 2006

2. desember 2006 – Í tilefni af símahlerunum...

Ég skrapp á Næstabar á föstudagskvöldið, hitti meðal annara Uppsaladömuna okkar, Þórdísi sem býr í Norðurmýri. Áður hafði ég rekist á mest hleruðu manneskju Íslandssögunnar, sjálfa vinkonu mína Birnu Þórðardóttur. Birna var þreytt enda alþjóðaalnæmisdagurinn að baki og á leið heim eftir erfiðan dag. Ég náði þó að spyrja hana um hleranir og Birna hló. Hún þurfti ekki að segja neitt, enda vafalaust vel kunnug hlerunum öll þessi ár. Sjálfri datt mér í hug ágæt saga sem mér barst á dögunum:

Gamall maður af arabískum ættum og sem búið hefur í Bandaríkjunum í áratugi ætlar að setja niður kartöflur í garðinn sinn eins og hann hefur gert í fjölda ára, en kemst þá að því að hann er orðinn of gamall og bakveikur til að standa í að plægja kartöflugarðinn sinn. Hann sest þá við tölvuna sína og sendir bréf í gegnum netið til Ahmeds sonar síns sem er við nám í Frakklandi:

“Kæri Ahmed!
Ég óttast að ég ráði ekki við að plægja kartöflugarðinn okkar til að setja niður kartöflur í hann. Ég er viss um að ef þú værir hér, þyrftum við ekki að hafa áhyggjur af þessu því þú gætir auðveldlega plægt garðinn áður en ég set niður kartöflurnar.”

Daginn eftir fær gamli maðurinn bréf í gegnum internetið:

“Elsku besti faðir minn.
Gerðu það fyrir mig, ekki plægja garðinn. Það er þar sem ég geymdi, þú veist.
Þinn trausti sonur Ahmed.”

Klukkan fjögur morguninn eftir mætir lögreglan í bænum á staðinn ásamt fulltrúum frá FBI, CIA, þjóðvarðliðinu og landgönguliðinu ásamt Steven Seagal, Sylvester Stallone, Clint Eastwood og Bruce Willis og þeir grafa og grafa og þeir snúa kartöflugarðinum upp og niður í leit að sprengiefni, skotfærum, vélbyssum og öðru hættulegu. Að lokum gefast þeir upp og hverfa á braut án þess að finna neitt.

Um kvöldið kemur nýtt bréf frá syninum:
“Elsku besti faðir minn.
Ég reikna með að kartöflugarðurinn sé núna tilbúinn fyrir útsæðið”
Þinn trausti sonur Ahmed”


0 ummæli:







Skrifa ummæli