miðvikudagur, desember 06, 2006

7. desember 2006 – Átthagafjötrar


Ég er enn í rusli eftir síðustu ferð mína til Evrópu. Ekki er það vegna þess að ferðin hafi verið neitt leiðinleg, langt í frá, né heldur að þjónustan hafi verið neitt slök. Hinsvegar finnst mér það fáránlegt að ferðin með “lággjaldafélaginu” Æsland Express skuli hafa verið helmingur kostnaðar við ferðina að áfengi og fríhafnarverslun frátalinni. Farmiðinn með Æsland Express kostaði með öðrum orðum jafnmikið og ferð með Ryan Air frá Englandi til Ítalíu og til baka aftur auk þriggja nótta á hóteli á Ítalíu og einnar nætur á hóteli í Stansted.

Það hefur verið rekinn vægðarlaus áróður gegn Ryan Air í löndum Evrópu á undanförnum árum, sumt kannski satt, en annað sem hljómar eins og neikvæður áróður samkeppnisaðila. Það er vissulega satt að ýmsar verklagsreglur félagsins og annarra slíkra, yrðu túlkaðar sem ákaflega neikvæðar útfrá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar. Ég neita hinsvegar að trúa því að þeir brjóti alvarlega gegn kjarasamningum og vinnuálagi, enda er Írland í Evrópusambandinu og slíkt yrði ekki liðið til langframa þar.

Þessa dagana hrynja inn allskyns jólatilboð frá Ryan Air inn á netfangið mitt sem og samstarfsfélögum þeirra, hótelum og bílaleigum þar sem allskyns jólatilboð eru í gangi auk ferða til flugvalla í mestallri Evrópu og Norður-Afríku fyrir innan við 5000 krónur báðar leiðir. Af reynslunni veit ég að þeim er alvara og að þessi tilboð eru ekkert grín. Sömuleiðis veit ég að margar vélarnar eru nýlegar og þokkalegar að innan og þjónustan ekkert síðri en hjá öðrum lággjaldafélögum og “lággjaldafélögum”. Vandamálið er bara að komast frá Íslandi og eitthvert þangað sem boðið er upp á ódýr fargjöld.

Með þessum orðum óska ég þjóðinni þess að Ryan Air byrji sem fyrst að fljúga til Íslands sem jólagjöf ársins og losi okkur undan vistarböndunum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli