sunnudagur, desember 24, 2006

24. desember 2006 – Gleðileg jól

Mig langar til að byrja á einni stuttri leiðréttingu því að sjálfsögðu geta mér orðið á lítil mistök rétt eins og Mogganum. Mér skilst að Dofri Hermannsson sé fastur Moggabloggari, en að sjálfsögðu setti hann upp hauspokann og læddist inn í friðargönguna á Þorláksmessu. Veri hann ávallt velkominn í Guðs friði sem og aðrir þeir sem velja friðinn framyfir hollustu við foringjann.

Þegar ég byrjaði til sjós og í mörg ár á eftir, var til siðs að flytja jólakveðjur til sjómanna á hafi úti, eftir hádegi á aðfangadag jóla. Í þau skipti sem hægt var að hlusta á íslenskt útvarp, voru jólakveðjurnar jafnframt það sem markaði þáttaskil á milli hversdagsleikans og jólahátíðar. Allir sem gátu komið því við, hlustuðu á jólakveðjurnar, oftast um leið og vistarverurnar um borð voru skreyttar og ilmurinn af jólasteikinni barst um skipið.

Þetta var oft mjög erfiður tími, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk. Það var erfitt að vera fjarverandi, að missa af sælubrosi barnanna á aðfangadagskvöld og hamingjunni sem skein úr andlitum þeirra, að þurfa að láta sér nægja að ímynda sér brosin á andlitum þeirra. Sjálf var ég ellefu jól á sjó eða á skipi í höfn erlendis af rúmlega tuttugu ára sjómennsku og taldi mig komast ágætlega frá þessu. Góður vinur minn lenti hinsvegar í að þurfa að leysa yfirvélstjórann af ár eftir ár og hafði ekki kjark í sér til að segja stopp, hingað og ekki lengra. Nú er komið að mér að fá frí ein jól. Í gamla daga fóru skipstjóri og yfirvélstjóri í frí um jólin og næstráðendur sigldu skipinu á meðan. Eftir að hafa verið á sjó í sautján jól nánast í röð, var þrek vinar míns búið og hann var keyrður beint á Vog er heim var komið úr jólatúr snemma í janúar. Þessi maður þarf ekki lengur að drekkja jólasorgum sínum í brennivíni. Hann er sjálfur þurr yfirvélstjóri í dag og stýrir sínu fólki af sanngirni og réttlæti, ekki eins og honum var stjórnað fyrr á árum.

Í dag eru fá skip á sjó á jólum, nánast engin fiskiskip, en fá önnur skip. Þá eru föst áhafnaskipti um borð og þess gætt að sem flestir fái sín jól með fjölskyldu sinni. Sjálf eyddi ég flestum mínum jólum á sjó um borð í flutningaskipum, en þó með tveimur undantekningum. Með fækkun skipa á sjó á jólum, hefur jólakveðjunum til sjómanna á hafi úti fækkað svo mjög, að jólakveðjurnar lögðust af. Þessari þróun ber að fagna.

-----oOo-----

Aðfangadagur jóla er dagur Kertasníkis, en rétt eins og Stekkjastaur er stýrimaðurinn í hópnum, er Kertasníkir sá sem veitir okkur birtu og yl (eins og ég) og heldur okkur að góðum verkum, drífur okkur áfram rétt eins og vélstjórinn kemur skipinu áfram með hjálp aflvéla skipsins.

Með þessu óska ég öllum þeim sem lesa bloggið mitt sem og öllum öðrum, gleðilegra jóla.

1 ummæli: