sunnudagur, desember 03, 2006

3. desember 2006 – Afmæli

Kæru lesendur. Þið þurfið ekkert að óttast. Ég á ekki afmæli fyrr en eftir 27 daga og það er bara hálfur tugur svo þið þurfið ekki byrja að leggja í stóran söfnunarsjóð fyrir afmælisgjöfinni minni. En ég fór í afmæli í Borgarnesi á laugardagskvöldið. Vor ágæta bloggvinkona og göngufélagi Guðrún Vala var að halda upp á fertugsafmælið og að sjálfsögðu var ég þar. Líka Gurrí blaðakona, en ekki Gurrý, af Skipaskaga.

Það var vel veitt og ræður fluttar og af ræðuflutningi sannfærðist ég enn frekar um að Guðrún Vala er ekki bara úr Dölunum, heldur ofvirk að auki. Slík er atorkan og sífellt hungur í að læra meira og meira. Ekki teljumst við skyldar, en ættir okkar tengjast á dálítið óvenjulegan hátt. Ingveldur föðursystir Guðrúnar Völu var nefnilega ráðskona hjá Magnúsi ömmubróður mínum og átti með honum eina dóttur.

Þar sem setið var í góðu yfirlæti var einhver að spyrja mig um starf mitt hjá Orkuveitunni. Ég sagði eins og var að ég væri búin að starfa þar í tíu ár og varð svo að hugsa mig um því víst átti ég afmæli. Fyrsti starfsdagur minn hjá Hitaveitunni, síðar Orkuveitunni, var nefnilega mánudagurinn 2. desember 1996 og eru því komin tíu ár frá því ég hóf þar störf.


0 ummæli:







Skrifa ummæli