mánudagur, desember 18, 2006

18. desember 2006 – “Á Valhúsahæðinni ...

... er verið að krossfesta mann.”

Loksins, loksins, kom eitthvert safaríkt slúður. Stöð 2 hafði vissu fyrir ásökunum sínum og auglýsti vel og vandlega að maður yrði tekinn af lífi með krossfestingu klukkan 22.25. Til að gera málið enn forvitnilegra var þess vandlega getið að þátturinn yrði stranglega bannaður börnum.

“Og fólkið kaupir sér far með strætisvagninum til þess að horfa á hann.”

Löngu áður en þátturinn hefst, er fólk búið að koma sér fyrir í sjónvarpssófanum með popp og kók því það skyldi ekki missa af krossfestingu þessa villutrúarmanns. Börn jafnt sem gamalmenni troðast í sófann og velta fyrir sér hvort Gummi í Byrginu sé Mummi í Mótorsmiðjunni eða hvort hann sé djöfullinn uppmálaður. Hann sem má ekki vamm sitt vita, hefur gert sig legorðssekan og auk þess notað svipur og allskyns lostatæki.

“Það er sólskin og hiti og sjórinn er sléttur og blár.”

Ekki er það alveg sannleikanum samkvæmt. Úti er frost og nepja sem á betur við í landi sem drepið hefur heilu kynslóðirnar úr vosbúð og kulda og danskri áþján, en í næsta versi deilir enginn um sannleikann:

“Þetta er laglegur maður með mikið enni og mógult hár”

Í sjónvarpsþættinum er manninum gefinn kostur á að svara ásökunum áður en krossfestingin fer fram. Hann svarar röggsamlega og hiklaust. Hann hefur orðið fyrir röngum sakargiftum. Fólk hefur stolið frá honum og fólk hefur lætt dónaskap inn á tölvurnar hans. Sjálfur er hann vel kvæntur og á börn og enginn efast um að hann hefur bjargað margri sálinni frá glötun. En samt. Réttlætið hefur sinn gang og því er framfylgt með krossfestingu.

“Og stúlka með sægræn augu segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast að láta krossfesta sig?”

Þá höfum við heyrt páskaboðskap Stöðvar 2, en afsakið: Eru ekki að koma jól?

(Innan gæsalappa: Passíusálmur nr 51, eftir Stein Steinarr)


0 ummæli:Skrifa ummæli