miðvikudagur, desember 20, 2006

20. desember 2006 – Endurtekið efni?

Þriðjudaginn 10. janúar síðastliðinn, fyrir tæpu ári síðan, birti DV mynd af þekktum kennara og rithöfundi á forsíðu ásamt fyrirsögn sem gekk út á að umræddur maður hefði verið kærður fyrir að nauðga piltum. Þetta hefði vafalaust getað orðið áhugavert dómsmál, en með hinni nýju fréttamennsku DV og umfjöllun blaðsins um þennan mann, tókst þeim að eyðileggja málið. Þegar kennarinn svipti sig lífi í kjölfar myndbirtingarinnar, var rannsókn málsins hætt, ritstjórar DV neyddust til að segja af sér og blaðið fór nánast á hausinn í kjölfarið og er nú eingöngu gefið út sem helgarblað.

Síðastliðinn sunnudag hóf Stöð 2 sama leikinn með því að ritstjórn fréttaskýringarþáttarins Kastljóss hóf að sakfella forstöðumann Byrgisins með svipuðum hætti og DV gerði í janúar síðastliðnum. Forstöðumaður Byrgisins hefur þó ekki farið sömu leið og kennarinn fyrir tæpu ári, heldur verst hann af hörku og er það vel.

Ég held að það sé alveg ljóst, að ef forstöðumaður Byrgisins hefði verið álíka langt niðri og kennarinn fyrir einu ári, þá væru Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jóhannes Kristjánsson ritstjórar Kompáss atvinnulausir í dag. Þeir mega því þakka fyrir að Guðmundur í Byrginu er maður til að berjast af hörku á móti þeim.

Það er ekki mitt að leggja á það mat hvort forstöðumaðurinn eða kennarinn séu eða hafi verið sekir eða saklausir af þeim glæpum sem þeim eru bornar á brýn. Það er heldur ekki hlutverk Sigmundar Ernis Rúnarssonar, Jóhannesar Kristjánssonar, Jónasar Kristjánssonar eða Mikaels Torfasonar. Það er hlutverk dómstólanna að leggja á það mat hvort þessir menn hafi gerst sekir um glæp eður ei. Þangað til forstöðumaðurinn verður hugsanlega dæmdur sekur er hann saklaus maður og ber að umgangast hann með virðingu.

Sumir blaðamenn sem og almenningur gera háværar kröfur um að stjórnmálamenn axli ábyrgð á verkum sínum. Við verðum að gera sömu kröfur til blaðamanna, því annars er illa komið fyrir þessu þjóðfélagi okkar. Við skulum svo hafa í huga að í réttarríki verður látinn maður ekki dæmdur sekur. Maðurinn sem svipti sig lífi fyrir ári síðan lést því saklaus af þeim syndum sem á hann voru bornar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli