laugardagur, desember 23, 2006

23. desember 2006 - Hvar hefur Sigurður Kári verið öll þessi ár?

Ég hlustaði á hluta af spjalli um fréttir vikunnar í síðdegisútvarpi Rásar 2, þar sem viðmælendurnir voru Sigurður Kári hinn flughræddi Kristjánsson alþingismaður og Árni Páll Árnason frambjóðandi. Vesalings Sigurður skyldi ekkert í því hverjar breytingar hefðu orðið á veðri síðan hann var að alast upp því þá hefði alltaf verið snjór og frost fyrir jólin. Ég þykist vita að Sigurður Kári hefur verið uppi á Grænlandsjökli veturinn 1976-1977. Allavega hefur hann ekki verið í Reykjavík, því það snjóaði varla allan veturinn. Sennilega hefur það verið einn snjóléttasti vetur tuttugustu aldar. Það sem af er þessum vetri hefur þegar snjóað miklu meira en allan þann vetur.

Hið vesæla veðurminni fólks er að vísu þekkt meðal veðurfræðinga og í bernskuminningunni snjóaði allan veturinn. Þetta minnir mig svo aftur á orð ágæts manns sem nú er látinn, en ól allan sinn aldur í dalnum góða, Mosfellsdalnum. Einhverju sinni var hann að rifja upp veðrið í gamla daga og öll skiptin sem það var nánast ófært úr dalnum góða. Ég reyndi hvað ég gat að rifja upp öll þessi skipti og man einungis eftir einu tilfelli sem skólabíllinn festist í skafli í Ásunum vestur af Mosfellsdalnum.

Þegar Sigurður Kári og Árni Páll hættu að ræða um veðrið og verið sammála um Byrgið (sem og ég), barst talið að strandi Wilson Muuga ex Selness á Hvalsnesi norðan við Stafnes. Missti þá Sigurður Kári út úr sér að hann skildi ekkert af hverju sjálfstýringin hefði verið á svona nærri landi. Orð hans segja mér það að annaðhvort hefur hann aldrei verið til sjós eða þá að hann hætti til sjós fyrir 1960. Mér finnst fyrri skýringin líklegri.

Sigurður Kári virðist halda að stýri í skipi sé eins og stýri í bíl eða þá svona gamaldags risastórt tréhjól þar sem maður stendur og stýrir 24 tíma á sólarhring á siglingu. Það er auðvitað ekki svo. Fyrstu sjálfstýringarnar frá því fyrir 1960 voru vissulega svo ófullkomnar að setja varð skipið á stefnuna áður en sjálfstýringin var sett á, en þær voru svo viðkvæmar að ef eitthvað var að veðri, fór skipið iðulega af stefnunni og þurfti þá að handstýra því inn á stefnuna að nýju eða kalla á vakt til að stýra skipinu. Selnesið er smíðað 1975 og þá voru löngu komnar mun fullkomnari sjálfstýringar þar sem einungis þurfti að snúa einum takka til að breyta stefnunni. Nýlegri skip eru búin með sjálfstýringar þar sem skipið beygir sjálft eftir GPS punktum eða öðrum staðarákvörðunarpunktum. Þetta vita lesendur mínir, að minnsta kosti þeir sem eru búnir með Stýrimannaskólann, þeir Siggi, Steini og Þórður. Það er hinsvegar eðlilegt að Sigurður Kári viti þetta ekki, enda er hann einungis með málflutningsréttindi og hefur sennilega aldrei dyfið hendinni í kalt vatn.

-----oOo-----

Ég ætlaði ekki að koma með nýja færslu fyrr en í morgunsárið, vitandi það að ég yrði á vakt um borð í Dettifossi í nótt. Áhöfn skipsins var hinsvegar kölluð til skips um miðnættið vegna mjög slæmrar veðurspár og þar með hafði ég ekkert frekar að gera um borð og flýtti mér heim.


0 ummæli:Skrifa ummæli