mánudagur, desember 04, 2006

4. desember 2006 – 2. kafli – Glaumbær brann og fólkið fann ...

Þar sem ég lá hálfsofandi uppi í rúmi í morgun með útvarpið í gangi heyrði ég viðtal við Ástu Ragnheiði fyrrum plötusnúð í Glaumbæ í tilefni þess að liðin eru 35 ár frá því þessi frægasti skemmtistaður Íslandssögunnar brann og gamlar minningar rifjuðust upp frá unglingsárunum.

Ég kom nokkrum sinnum í Glaumbæ þegar ég var 18 og 19 ára, ekkert mjög oft, enda stundaði ég sjó á þessum aldri og sjaldan í landi um helgar. Aldurstakmarkið var 20 ár um helgar, en á fimmtudögum var öllu frjálslegra og miðaðist við 18 ár. Það breytti ekki því að Jón Hildiberg frændi minn vann í Glaumbæ og laumaði mér inn í gegnum eldhúsið þegar hann varð var við mig í biðröðinni í portinu að reyna að komast inn.

Sjálfri þótti mér staðurinn ekkert sérstakur af tískustað að vera. Mér þótti Klúbburinn við Borgartún öllu skemmtilegri þótt mun eldra fólk stundaði hann á þessum tíma. Og svo voru náttúrulega Röðull og Þórskaffi sem höfðuðu meira til þeirra sem stunduðu vinnu á óhefðbundnum tímum, sjómenn og vaktavinnufólk.

Veturinn 1971-1972 var ég langdvölum í millilandasiglingum og kom ekki heim nema dagspart tvisvar eða þrisvar allan veturinn. Því olli Glaumbæjarbruninn mér engum sérstökum sárindum eða nostalgíuminningum, nema þá helst fyrir það mig vantaði enn nokkra daga í að verða lögleg þar inni þegar hann brann. Það var því ekki fyrr en veturinn á eftir sem ég var komin á skólabekk að nýju sem ég varð fyrst fyrir áfalli vegna Glaumbæjarbrunans. Það var þegar ég uppgötvaði að það var komin alltof löng röð fyrir utan Klúbbinn sem nú var orðinn vinsælasti staðurinn í bænum og sem hann var næsta áratuginn á eftir.

Það er svo aftur önnur saga sem ég veitti litla eða enga athygli þegar risastóru diskótekin sungu sitt síðasta og tími litlu skemmtistaðanna tók við.


0 ummæli:Skrifa ummæli