laugardagur, desember 16, 2006

17. desember 2006 – Skulu dæmdir af verkum sínum ....

..... voru orðin sem Jón Sigurðsson gaf árangri Framsóknarflokksins í landsmálunum síðustu 90 árin.

Þar sem ég var í vinnunni og fylgdist með fréttum af 90 ára afmæli Framsóknarflokksins, fóru í gegnum huga minn stuðningur fyrrum formanns Framsóknarflokksins við innrás og fjöldamorð í Írak. Sömuleiðis var mér hugsað til þeirra 80 Framsóknarmanna sem hafa fengið bitlinga hjá Reykjavíkurborg að sögn Björn Inga Hrafnssonar og þá sérstaklega þess þeirra sem Reykvíkingar höfnuðu en fékk samt feit embætti. Í gegnum hugann fór sú spilling í mannaráðningum og bitlingum sem Jónas frá Hriflu innleiddi hér á landi í árdaga Framsóknarflokksins og nú síðast, hvernig Framsóknarmenn hafa hreinlega keypt sér fylgi í síðustu tvennum kosningum.

Á afmælisfundi Framsóknarflokksins reigði sig formaður flokksins sjálfur Jón Sigurðsson eins og Gissur jarl Þorvaldsson á meðan utanríkisráðherrann virðist hafa verið í Noregi að semja við þarlent konungsvald um yfirtöku landsins rétt eins og Gissur jarl og Þórður kakali á þrettándu öld. Á mánudag ætlar kakalinn að gera víðreist og reyna að komast að samkomulagi við Dani, þið vitið, þjóðina sem hefur reynst okkur verst allra þjóða í gegnum aldirnar. Nú eiga þeir að taka að sér varnir þjóðar sem hvorki þarf á dönskum né norskum vörnum að halda. Við vitum hvernig slík svik enda. Hið einasta sem við þurfum á að halda, eru lítt eða ekki vopnuð varðskip, þyrlur og flugvélar sem halda uppi löggæslu og öryggisþjónustu sjófarenda á Norður-Atlantshafi sem og öryggisþjónustu við strendur og á hálendi Íslands, ekkert annað.

Ég hefi verið spurð að því, af hverju ég ræðst ekki að Sjálfstæðisflokknum af sama offorsi og ég ræðst gegn Framsóknarflokknum? Því er til að svara, að Sjálfstæðisflokkurinn er með stefnu, ákveðna stefnu sem er í algjörri andstöðu við lífsskoðanir mínar, en samt stefnu. Með andláti samvinnuhreyfingarinnar hefur Framsóknarflokkurinn enga raunverulega stefnu lengur aðra en það markmið að sitja að völdum og sitja sem lengst að völdum.

Af þessu tilefni og þrátt fyrir hamingjuóskir mínar í gær til þessarar ónefnu af flokki í tilefni af níræðisafmælinu, held ég að best sé fyrir alla aðila að þessi gjörspillti eiginhagsmunaflokkur fái að deyja í friði, saddur lífdaga.

-----oOo-----

Á föstudag rölti ég út á pósthús með nokkur jólakort sem ég hugði koma í póst til vina og vandamanna erlendis. Ofurkisan Hrafnhildur fylgdi mér niður stigana, en öfugt við venjuna þegar ég hleypi henni út garðmegin og fer svo sjálf út að framanverðu, fór ég með henni út í garð og rölti þá leiðina út í pósthús sem er jú örstutt frá heimilinu. Hrafnhildur ofurkisa átti ekki von á því að ég breytti útaf venjunni og rölti því með mér út í pósthús rétt eins og þegar hundur fylgir eiganda sínum. Hún beið svo róleg fyrir utan pósthúsið á meðan ég lauk erindum mínum þar inni og rölti svo með mér heim aftur.

Það er alveg á hreinu, að ekki þarf ég á hundi að halda, þegar ég á jafn húsbóndaholla kisu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli