mánudagur, desember 25, 2006

25. desember 2006 – Af gömlu jólastressi

Sumarið 1981 lenti flutningaskipið Berglind sem var í rekstri hjá Eimskip, í árekstri við flutningaskipið Charm og sökk. Til þess að fylla það skarð sem Berglindin skyldi eftir sig, tók Eimskip danskt flutningaskip á leigu að nafni Junior Lotte. Skipið sigldi á Ameríku á móti Bakkafossi.

Ég var í landi veturinn 1981-1982 og sá um viðhald frystigáma. Junior Lotte var í höfn í Reykjavík tveimur dögum fyrir jól og gekk illa að lesta skipið í frostinu þessa daga fyrir jól. Það voru tveir kranar á skipinu og báðir dieselknúnir og þurfti að loka lúgum skipsins með hjálp krananna, en þeir fóru ekki í gang í frostinu. Þá var hringt í okkur í gámaeftirlitinu af tæknideildinni og við beðin um að aðstoða áhöfnina við að koma krönunum í gang. Mig grunaði strax að áhöfnin kærði sig ekkert um að fá kranana í gang svona rétt fyrir hátíðarnar og hefðu ætlað sér að sitja á þessari bilun þar til mesta jólahátíðin væri liðin. Valdi vinnufélagi minn, hin mesta hamhleypa til allra verka, var þó ekki á því að láta þessa menn komast upp með slóðaskapinn, greip Kosangaskút og óð um borð og hóf að hita vél annars kranans með hjálp Kosangass og þegar hann öskraði, ræsa, gaf ég vélinni start og við hurfum í reykmekki um leið og vél kranans fór í gang. Svo afgreiddum við hinn kranann á sama hátt og eftir það hafði áhöfn skipsins enga afsökun lengur fyrir því að loka lúgunum svo unnt væri að ljúka lestun skipsins og senda það af stað til Ameríku.

Áhöfn Junior Lotte sá enga ástæðu til að fagna þessu framtaki okkar. Þvert á móti fundu þeir atorku okkar allt til foráttu, en þeir neyddust samt til að halda úr höfn á Þorláksmessu, en íslenska þjóðin fór heim og hélt sín jól. Á aðfangadagskvöld jóla 1981 var flutningaskipið Junior Lotte á siglingu eigi fjarri suðurodda Grænlands, er yfirvélstjóri skipsins fékk skyndilega heiftarlega magakveisu og eftir alvarlegar þrautir í skamman tíma, lést hann í höndum skipsfélaga sinna án þess að neinni björgun yrði komið við. Líkinu var síðan komið fyrir í tómum frystigám, en nýr yfirvélstjóri kom svo um borð eftir að komið var til Norfolk í Virginíufylki.

Næstu árin á eftir var ég iðulega að ásaka sjálfa mig og Valda fyrir dugnaðinn. Ég veit auðvitað að við gátum ekkert að þessu gert og vorum einungis að sinna skyldustörfum, en hefðum við verið aðeins værukærari við að koma skipskrönum skipins í gang þennan örlagaríka dag ársins 1981, væri yfirvélstjórinn kannski lifandi enn í dag.

Með þessari sorgarsögu ítreka ég enn og aftur jólaóskir mínar til allra sem nenna að lesa bloggið mitt. Sömuleiðis fá allir bifreiðarstjórar sem gáfu okkur stefnuljós í jólagjöf á aðfangadag jólakveðjur. Að lokum ætla ég að fyllast kristilegum kærleiksanda og senda jólakveðjur bílstjóranum á gráu Golfdruslunni sem stalst til að leggja í stæðið mitt á aðfangadag og er enn með hræið sitt í stæðinu þegar þessi orð eru rituð.


0 ummæli:







Skrifa ummæli